Site icon Fitness.is

Nokkur ráð sem hjálpa þér að ná markmiðinu í líkamsræktinni

Okkur gengur afskaplega illa að losna við aukakílóin miðað við þá þekkingu sem við höfum viðað að okkur um aðferðir til að losna við þau. Ástæðan er líklega sú að eitt er að vita og annað að gera.Vilji, sjálfsagi, hvatning og þrautseigja eru þættir sem ráða miklu um það hvernig gengur og eru algerlega undir okkur sjálfum komnir. Ef þessi atriði skortir er hætt við að litlu skipti hversu mikilli þekkingu við búum yfir um mataræði eða lífsstíl.

1. Stundaðu þá hreyfingu sem þér þykir skemmtileg. Ef þér þykir skemmtilegra að hlaupa úti, heldur en inni á hlaupabrettum skaltu gera það. Ef fjallgöngur og langar gönguferðir eru þér að skapi er það hreyfing sem þú ættir að leggja áherslu á. Ef þér þykir skemmtilegra að æfa í hóptímum með öðrum skaltu gera það. Staðreyndin er sú að sumt sem við gerum í lífinu er ekki skemmtilegt, en þegar lífsstíll er annars vegar er nauðsynlegt að þú veljir þér hreyfingu eða æfingar sem veita þér ánægju. Ef þér leiðist æfingarnar sem þú ert að gera er afskaplega líklegt að þú hættir þeim innan tíðar.

2. Settu þér markmið. Ef þú átt þér engin markmið er líklegra að þú hættir einn daginn að æfa eða gæta hófs í mataræðinu. Markmiðið getur verið að ætla að ná ákveðinni kílóatölu á ákveðnum tímapunkti, eða ná einhverjum æfingatengdum markmiðum. Hlaupa t.d. 5 km á ákveðnum tíma eða lyfta ákveðinni þyngd í einhverri æfingu.  Haltu dagbók yfir árangurinn og vigtaðu þig einu sinni á dag, alltaf á sama tíma, t.d. morgnana þegar þú vaknar.  Gættu þess að markmiðin séu raunhæf, helst mörg sem í nokkrum skrefum ná að uppfylla eitthvert meginmarkmið. Skrifaðu markmiðin niður í dagbókina. Þetta minnir þig á þegar þú þarft að rifja upp af hverju í ósköpunum þú ert að þessu.

3. Hvatning sem felst í ógnandi mynd í ísskápnum hjálpar. Ísskápurinn þinn er mjög líklega upphaf og endir velgengni í mataræðinu. Það er innihald hans sem ræður miklu um það hvort þú standir við þau markmið sem þú hefur sett þér. Það er því vel við hæfi að nota hann til áminningar. Taktu ljósmynd af þér sem sýnir svo ekki sé um villst að þú ert ekki í formi. Hengdu síðan myndina upp inni í ísskápnum. Ef þú vilt vera alveg viss um að falla ekki í freistingar seint á kvöldin þegar þú opnar ísskápinn í einhverju erindislausu eyrðarleysi er líklegt að myndin minni þig á markmiðin sem þú settir þér. Ef þér finnst það að hengja upp mynd í ísskápnum full gróft og hún þykir sjónmengun fyrir aðra á heimilinu, er líka hægt að setja upp áberandi miða framan á og innan í ísskápinn sem segir „lokað eftir kl 20.00“. Oftar en ekki eru það kvöldin sem reyna á viljastyrkinn til þess að háma í sig allt sem í ísskápnum er. Þannig geturðu minnt þig á að halda réttri stefnu.

4. Finndu þér sálusorgara og æfingafélaga. Það er mjög persónubundið hversu háðir menn eru því að þurfa æfingafélaga. Í flestum tilfellum virkar mjög hvetjandi að eiga sér æfingafélaga sem hægt er að bera sig saman við og um leið og hann hvetur þig áfram, hvetur þú hann áfram. Þannig getur æfingafélaginn hvatt þig áfram við að ná þeim markmiðum sem þú stefnir að.

Exit mobile version