Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur verið á nornaveiðum þegar efedrín er annars vegar og lagt sig fram um að fá þetta vinsæla efni bannað. Flest íþróttasamtök hafa látið undan þrýstingi frá Matvæla- og lyfjaeftirlitinu og bannað efnið innan sinna raða. Talið er að minnst 2,3 milljónir Bandaríkjamanna noti efnið reglulega til þess að halda aukakílóunum í skefjum og hafa bætiefnaframleiðendur sem og ýmis samtök sem aðhyllast náttúrulækningar staðið í deilum um hollustu eða óhollustu þessa efnis.
Nú hefur verið birt niðurstaða rannsóknar sem var í umsjón fjölda vísindamanna, m.a. frá Harvardháskóla, Kolumbíuháskóla, Beth Israel-Deaconess læknamiðstöðinni og Vanderbilt háskólanum í Bandaríkjunum. Rannsóknin sem stóð í sex mánuði sýndi fram á að efedrín- og koffínblanda auðveldaði fólki að léttast og losna við fitu án teljandi aukaverkana. Þeir sem tóku þátt í tilrauninni tóku ýmist lyfleysu eða Ma Huang og kólablöndu (90mg efedrín, 192 mg koffín) daglega í sex mánuði. Þessi blanda olli smávægilegri blóðþrýstingshækkun og hækkuðum hvíldarpúlsi, en olli ekki hjartsláttartruflunum, brjóstsviða, ógleði né pirringi. Meðalmaður sem tók þessa blöndu léttist um 5 kg af fitu á meðan rannsókninni stóð. Þessi mikilvæga rannsókn sýnir að efedrín og koffínblöndur eru hættulausar þegar til lengri tíma er litið.
Heimild: Int. J. Obesity 26: 593-604, 2002