Site icon Fitness.is

Lyktarskyn ræður miklu um matarlyst

Við finnum til löngunar í góðan mat þegar við finnum matarilm. Þeir sem finna ekki lykt borða minna fyrir vikið.

Borðum við minna ef við missum lyktarskynið?

Vonandi fer enginn að reyna að missa lyktarskynið eftir að lesa þetta. Það er hins vegar þannig að vísindamenn við Kaliforníuháskóla í Berkley komust að því að mýs sem misstu lyktarskynið tímabundið léttust meira en mýs með eðlilegt lyktarskyn.

Hvað er það sem gerist þegar lyktarskynið hverfur? Við notum lykt til að þefa uppi mat og því má færa rök fyrir því að freistingar verði færri.

Við þekkjum það öll að hafa verið á röltinu í verslunarmiðstöð og fundið matarilm sem lokkar okkur inn á veitingastað. Þegar nágranninn fer að grilla á kolagrillinu sínu er líklegt að löngun í góðan mat kvikni þegar ilmurinn af kolagrilluðum steikum leikur um vitin.

Skynfærin okkar hafa þróast þannig að við finnum til löngunar í mat við það að finna matarilm. Það má því færa rök fyrir því að þeir sem finna enga lykt falli sjaldnar í freistni og borði því á heildina litið færri hitaeiningar en aðrir.

Þegar hungrið sverfur að eflast skynfærin. Sérstaklega lyktarskynið. Við finnum aldrei sterkari lykt en þegar við erum svöng. Líklega hefur sá eiginleiki þróast í gegnum árþúsundin þar sem þeir sem hafa gott lyktarskyn finna frekar mat en aðrir.

Vísindamenn hafa sýnt fram á það hvaða áhrif lyktarskynið hefur með því að gera rannsóknir á músum. Þeir völdu tvær mýs sem voru jafn stórar og jafn þungar og lömuðu lyktarskynið tímabundið í annarri þeirra. Báðar fengu fituríkt mataræði en músin sem var með eðlilegt lyktarskyn varð spikfeit en hin ekki.

Vísindamennirnir komust einnig að því að lyktarleysið varð þess valdandi að hvít- og drapplituð fita breyttist í auknum mæli í brúna fitu. Brún fita inniheldur meira magn af hvatberum en hvít fita en þeir eru einskonar orkustöðvar innan frumna. Aukning brúnu fitunnar og fjölgun hvatberana varð til þess að auka hitaeiningabrennslu.

Mýs og menn eiga margt sameiginlegt þegar líffræði er annars vegar. Það skýrir allar þessar rannsóknir sem gerðar eru á músum. Hins vegar er óþarfi að hlaupa til og telja að allar niðurstöður músarannsókna megi heimfæra á okkur mannfólkið. Efnaskipti músa eru hraðari en í mönnum og því er erfitt að fullyrða að þessar niðurstöður megi heimfæra á menn.

Niðurstöðurnar lofa hins vegar góðu og auka skilning okkar á því hvernig efnaskipti, fitubrennsla og neysla spila saman. Það er því ekki hægt að útiloka þann möguleika að í framtíðinni muni baráttan við offituna byggjast á aðferðum sem nýta sér þekkingu á lyktarskyni fremur en varasömum skurðaðgerðum eða pillum.
(Cell Metabolism, 26. bindi, útgáfa 1, bls 198-211.e5, 5 júlí 2017)

Exit mobile version