Site icon Fitness.is

Kristín H. Kristjánsdóttir íþróttamaður ársins

Alþjóðasamband líkamsræktarmanna hefur valið Kristínu H. Kristjánsdóttur íþróttamann síðastliðins árs meðal líkamsræktarfólks. Við val á íþróttamanni ársins er aðallega stuðst við árangur á mótum á árinu og tekið tillit til styrkleika mótanna og horft er til styrkleika flokkanna sem keppt er í.

Ásamt þessu er ætlast til þess  að sá sem titilinn beri sé góð fyrirmynd sem íþróttamaður og persóna. Fyrsta árið sigraði Kristín H. Kristjánsdóttir. Árin 2008 og 2009 var það Magnús Bess. Á árinu 2010 náðu margir keppendur mjög góðum árangri og komust í verðlaunasæti á stórum erlendum mótum. Að þessu sinni urðu þrjár konur í efstu sætunum. Í þriðja sæti varð Katrín Eva Auðunsdóttir. Katrín keppti á Evrópumóti í Serbíu og stóð sig vel þar án þess þó að komast í úrslit en hún náði hins vegar þeim stórkostlega árangri að sigra sinn flokk á Arnold Classic Fitness Festival mótinu. Keppnisferill Katrínar var aðeins styttri á árinu en til stóð en hún gekk með barn síðari hluta ársins. Í öðru  sæti var Rannveig Kramer. Rannveig varð íslandsmeistari í sínum flokki ásamt því að vera heildarmeistari. Rannveig varð í þriðja sæti á sterkasta Norðurlandamóti sem haldið hefur fram til þessa í Finnlandi. Hún varð einnig bikarmeistari  í sínum flokki og heildarsigurvegari. Íþróttamaður ársins 2010 er Kristín H. Kristjánsdóttir. Kristín varð í fimmta sæti á Arnold Cassic Fitness Festival í sínum flokki.  Hún varð íslandsmeistari í sínum flokki og í öðru sæti í heildarkeppninni. Kristín varð svo í fimmta sæti á heimsmeistaramótinu í Tyrklandi. Mótið var eitt það sterkasta frá upphafi og flokkur Kristínar mjög fjölmennur og aðeins skipaður bestu keppendum frá sínum löndum. Með tilliti til styrkleika mótsins telst þetta besti árangur sem íslenskur fitnesskeppandi hefur náð til þessa.

Exit mobile version