Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar er hættulaust fyrir þungaðar konur og unga krakka að neyta koffíns í töfluformi. Koffín hefur engin skaðleg áhrif á líkamann ef þess er gætt að dagleg neysla fari ekki yfir 400 mg. Um 400 mg jafngildir fjórum kaffibollum eða átta tebollum.
ILSI (International Life Sciences Institute) stofnunin stóð fyrir endurskoðun rannsóknar á áhrifum koffíns og komst að þeirri niðurstöðu að 400 mg dagsskammtur af koffíni væri skaðlaus. Rannsakendurnir við ILSI stofnunina skoðuðu 740 rannsóknir á koffíni áður en þeir kynntu niðurstöður sínar.
Íþróttamönnum hefur oftast verið ráðlagt að drekka ekki kaffi. Ástæðan er sú að einn kaffibolli að morgni kann að hljóma sakleysislega en kaffibollar eru fljótir að fjölga sér. Fyrr en varir er búið að drekka þrjá, fjóra, fimm, bolla. Þeir sem drekka kaffi eru því fljótir að aðlagast áhrifunum sem þessi unaðsdrykkur veitir. Þar liggur ástæða þess að oft hefur íþróttamönnum verið ráðlagt að drekka ekki kaffi í viku fyrir keppni.
Bruno Gualano er prófessor í lífeðlisfræði og næringarfræði við Sao Paulo í Brasilíu. Hann komst að því að þrátt fyrir að koffín sé daglegur hluti mataræðisins geti það samt sem áður bætt frammistöðu við æfingar.
Rannsókn Bruno byggðist á að karlkyns keppendur í hjólreiðum fengu 400 mg af koffíni klukkustund fyrir hjólaæfingu. 400 mg jafngilda koffíni í fjórum kaffibollum.
Þátttakendurnir í rannsókninni fengu lyfleysu til samanburðar á sumum hjólaæfingum.
Nánast allir þátttakendurnir í rannsókninni gátu hjólað hraðar og af meiri krafti eftir að hafa fengið töflu sem innihélt koffín. Að meðaltali 3,3% hraðar en þegar þeir fengu enga töflu og 2,2% hraðar en þegar þeir fengu lyfleysu.
Hjólreiðamenn sem voru vanir mikilli daglegri koffíndrykkju bættu frammistöðuna jafn mikið og þeir sem voru ekki vanir því að fá koffín daglega.
Niðurstöðurnar ganga þvert á þær kenningar vísindamanna og þjálfara sem fram til þessa hafa haldið því fram að til þess að bæta frammistöðu með því að taka koffín þurfi að hætta kaffidrykkju eða koffíntöku nokkrum dögum og jafnvel nokkrum vikum fyrir keppni.
(Journal of Applied Physiology, 123: 213-220, 2017)