Site icon Fitness.is

Kjötætur í meiri hættu gagnvart hjarta- og kransæðasjúkdómum

Rautt kjöt inniheldur í flestum tilfellum mikið af mettuðum fitusýrum og þeir sem flokkast undir að borða kjöt og kartöflur eins og ætla má að stór hluti íslendinga flokkist undir eru margir líka hrifnir af sósum, smjöri og fituríkum eftirréttum. Hjarta- og kransæðasjúkdómar flokkast undir blóðrásarsjúkdóma en þeir eru algengasta dánarorsökin hér á landi. Um 41% allra dauðsfalla stafa af blóðrásarsjúkdómum og æxli valda 28% dauðsfalla samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Kjötneysla eykur verulega á hættuna á hjarta- og kransæðasjúkdómum og því er vel við hæfi að reyna að velja vel þegar kjöt er annars vegar. Kjöt er nefnilega ekki sama og kjöt. Því miður hafa ekki mjög margar rannsóknir verið gerðar á breytilegum áhrifum hinna ýmsu kjöttegunda. Þeir sem borða rautt kjöt á annað borð, borða flest sem að kjafti kemur. Ítölsk rannsókn hefur þó sýnt fram á að sumt rautt kjöt er hollara en annað. Bornir voru saman fullorðnir einstaklingar sem borðuðu annað hvort hálft kíló af nautakjöti eða hálft kíló af kjöti af vatnabuffaló. Áhættuþættir þeirra sem borðuðu kjöt af vatnabuffalóum reyndust hættuminni gagnvart blóðrásarsjúkdómum. Kólesteról og þríglyseríð mældust lægri, blóðrýstingur var heppilegri og oxunarálag var minna.

Það er ekki líklegt að við rekumst á kjöt af vatnabuffaló úti í búð. Hitt er annað mál að niðurstöður þessarar rannsóknar sýnir okkur að ein kjöttegund er betri en önnur. Nauta- og lambakjöt og unnar afurðir úr slíku kjöti eru líklega algengastar til neyslu hér á landi. Villibráð eins og endur, gæsir, rjúpa, hrefna og hreindýr eru magrar kjöttegundir og innihalda mun minna af mettuðum fitusýrum en annað kjöt. Sama má segja um kjúklingakjöt sem er hvítt. Það er því ekki erfitt að ímynda sér að þessar kjöttegundir séu mun hollari gagnvart áðurnefndum sjúkdómum en fituríkt nautakjöt og afurðir þess.

(European Journal of Clinical Nutrition, 64: 1000-1006, 2010)

Exit mobile version