Site icon Fitness.is

Kalk dregur úr fitusöfnun

Ýmsar kenningar í næringarfræðinni koma og fara og endast misjafnlega lengi. Sum grunnatriði standa þó af sér alla strauma og ein af nýjustu kenningunum sem stendur styrkum fótum er sú að mikil kalkneysla dragi úr líkamsfitu. Nokkuð margar rannsóknir hafa sýnt fram á að fitulítil mjólk stuðlar að fitulosun. Mikil kalkneysla hefur það í för með sér að virkni kalks inni í fitufrumum minnkar. Kalk í fitufrumum þjónar stóru hlutverki þegar fitugeymsla er annars vegar. Ef hróflað er við kalki í fitufrumum dregur úr hæfileika þeirra til að geyma fitu. Dr. M. Zemel og félagar birtu grein sem birt var í FASEB ritinu (14: 1132-1138, 2000) þar sem kom fram að þeir sem borðuðu mikið af kalki léttust meira en þeir sem fengu lítið kalk í gegnum mataræðið. Kalkið virðist örva sundrunarprótín í frumunum. Þessi prótín eru draumur þeirra sem eru í megrun. Þau breyta orku í hita í stað þess að geyma hana sem fitu. Samkvæmt rannsókninni er talið að með því að bæta 1000 mg af kalki við mataræðið í bætiefnaformi geti það hjálpað til við fitulosun. Menn ættu ekki að búast við stórstígum framförum við þessa breytingu, en engu að síður er ljóst að þetta hjálpar til þegar ætlunin er að losna við aukakílóin.

Exit mobile version