Site icon Fitness.is

Íslendingar keppa í Austurríki og á Spáni um helgina

Maggi Sam og Kristín Kristjánsdóttir keppa á International Austrian Championships um helgina. Maggi í vaxtarrækt og Kristín í bodyfitness. Freyja Sigurðardóttir keppir sömuleiðis á European Cup Amateur í Madríd í dag. Öll eru þau nú þegar komin í úrslit sex efstu. Freyja keppir við sterka keppendur í Madríd en sigurvegari í flokknum hennar fær alvöru atvinnumannakort í fitness, svonefnt ProCard.  Hún er þar að keppa við Mari Pakkila frá Finnlandi sem hafnaði í þriðja sæti á síðasta heimsmeistaramóti og Cristina Romano frá Ítalíu sem varð önnur árið 2010 á Evrópumótinu. Í umfjöllun IFBB.com um keppnina kemur fram að líklegt þyki að Freyja, Mari og Cristina séu líklegar til að berjast um efstu sætin. Freyja hafnaði nýlega í þriðja sæti í Oslo Grand Prix og allar dyr eru opnar þar sem skjótt skipast veður í lofti þegar að úrslitum stórmóta eru annars vegar. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur keppir á alþjóðlegu móti þar sem atvinnumannakort er í boði.

Maggi keppir í sterkum 12 manna flokki í vaxtarrækt og samkvæmt augum okkar á staðnum er hann líklegur í fyrsta eða annað sæti. Kristín keppir í 35 ára og eldri flokki og fari svo að hún sigri þann flokk eins og hún gerði á þessu móti á síðasta ári mun hún líklega keppa í heildarkeppninni.

Við segjum nánar frá úrslitunum um leið og þau liggja fyrir.

 

Exit mobile version