Site icon Fitness.is

Íslandsmótið framundan

Kristján Samúelsson sem sigraði á síðasta ári hefur verið að stunda æfingar í Noregi undanfarið. Hann ku vera í góðu formi og ætlar örugglega að láta menn hafa fyrir því að ná af sér titlinum. Hans sterka hlið er ekki bara samanburðurinn heldur hefur honum gengið mjög vel í hindranabrautinni og æfingunum.
„Sigurbjörn Ingi Guðmundsson varð Íslandsmeistari árin 2002 og 2003. Hann mætir einnig til keppni á laugardaginn og er í gríðarlega góðu formi. Sigurbjörn keppti ekki á síðasta ári, en kemur nú aftur tvíefldur til leiks. Það verður mjög spennandi að sjá hann mæta Kristjáni og Guðna sem hafa verið fremstir meðal jafningja undanfarið.
Guðni Freyr hefur nánast verið í áskrift að öðru sætinu undanfarin ár. Í samanburði býr Guðni yfir gríðarlega góðu samræmi og hefur ávalt komið skorinn til keppni. Á síðasta ári voru hann og Kristján límdir saman í samkeppninni enda gaf Guðni ekkert eftir í hindranabrautinni og æfingunum. Hvort Guðna tekst að hrista af sér annað sætið og komast í það fyrsta verður spennandi að sjá.
Þær Heiðrún Sigurðardóttir, Anna Bella Markúsdóttir og Sif Garðarsdóttir sem skipuðu þrjú efstu sætin á síðasta ári koma allar til með að keppa aftur um helgina. Það verður því heitt í kolunum í kvennaflokknum en búast má jafnvel við að fleiri blandi sér í toppbaráttuna. Þær stöllur stefna allar á keppni á alþjóðlegum mótum á árinu og líklegt að þær komi til með að keppa á Norðurlanda-, Evrópu- og heimsmeistaramótunum.
Íslandsmótið í vaxtarrækt sem verður haldið á föstudaginn kl 20.30 í Sjallanum á Akureyri kemur til með að marka tímamót. Þó ekki séu nema 10 keppendur að keppa eru þar tvímælalaust sterkustu keppendur sem stigið hafa á svið. Magnús Bess sem unnið hefur flesta Íslandsmeistaratitla allra frá upphafi í vaxtarrækt mætir þar sterkum keppendum, þar á meðal Sigurði Gestssyni sem hefur 12 sinnum orðið Íslandsmeistari og er nú að mæta eftir 14 ára keppnishlé. Kappinn er þó í góðu formi og væri vís með að standa í hárinu á sér yngri mönnum. Það er á hreinu að fleiri koma til með að gera tilkall til Íslandsmeistaratitilsins. Fluga á vegg tjáði undirrituðum að Alfreð Pálsson nokkur sem hefur keppt tvisvar sinnum áður sé í hrikalegu formi og fylgdi sögunni að annar eins gæðamassi hefði ekki sést á Íslensku sviði. Þeir Kristján Árnason og Anton Sigurðsson sem hafa stundað æfingar í Drammen í Noregi koma líka örugglega til með að leggja sitt til málana ásamt Sæmundi Hildimundarsyni sem hefur verið í toppbaráttunni undanfarin ár.
Vöru- og þjónustusýning verður laugardag milli klukkan 13.00 til 17.00 og svo aftur á meðan keppnin stendur yfir klukkan 19.00 til u.þ.b. 20.30. Um 14 aðilar sýna ýmsar vörur og þjónustu sem ættu að vekja forvitni áhugafólks um likamsrækt. Ekkert kostar inn á vörusýninguna að deginum. Á meðan vöru- og þjónustusýningin fer fram verður keppt í upptogi og dýfum í Íþróttahöllinni og seinna sama dag fer fram fyrsta innanhússmót sem haldið hefur verið í róðri innanhúss á Concept2 róðravélum. Öllum er velkomin þátttaka.“

Exit mobile version