Site icon Fitness.is

Inga Hrönn var einu stigi frá gullinu á Nafplio Classic

Inga Hrönn Ásgeirsdóttir hefur verið að stimpla sig inn á alþjóðlegum mótum sem einn af okkar fremstu keppendum í bodyfitness. Nýverið hlaut hún silfurverðlaun á IFBB Nafplio Classic mótinu sem haldið var í Grikklandi, einu stigi á eftir sigurvegara flokksins. Mótið var úrtökumót þar sem atvinnumannaréttindi stóðu til boða fyrir sigurvegara í heildarkeppni flokka. Inga Hrönn var því innan seilingar við tækifæri til atvinnumennsku.

Hver er Inga Hrönn Ásgeirsdóttir?

Ég er fjölhæf ef svo má segja. Ég er auðvitað fyrst og fremst móðir og kærasta en ég er líka verslunareigandi, einkaþjálfari og auðvitað fitness keppandi.

Ég fékk mjög ung áhuga á fitness, þegar enn var keppt í þrautabraut, upphýfingum og armbeygjum. Ég keppti t.d. í Skólahreysti fyrsta árið sem það var haldið! En svo þegar ég komst á þann stað að ég var tilbúin að keppa sjálf í fitness þá var búið að leggja af þrautabrautina svo ég keppti í módelfitness árið 2012. Ég veit í rauninni ekki hvað það var sem endilega kveikti áhugann, ég jú heillaðist af þessum fitness-skrokkum og hef alltaf verið mikið fyrir áskoranir.

Það er mjög erfitt að fara í fitness undirbúning og ætla sér að sigra alla hina sem eru á mótinu því maður veit aldrei hverjir eru að keppa eða hvaða formi þeir eru í. Fyrir mér er fitness fyrst og fremst áskorun á sjálfa mig og snýst um að bæta mig og mitt form á milli ára. Ég hef verið að keppa reglulega síðan 2012, bæði hér heima og erlendis.

þetta er vissulega krefjandi sport – bæði andlega og líkamlega en ofboðslega skemmtilegt

Sló tvær flugur í einu höggi

Undirbúningurinn fyrir þetta mót gekk ofboðslega vel. Ég ákvað 10 vikum fyrir þetta mót að mig langaði að taka þátt, fyndið að segja frá því hvernig það kom til.

Ég gat ekki ákveðið hvort mig langaði að fara út og keppa á einhverju flottu móti eða fara í sólarlandarfrí með kallinum þannig ég lagðist bara yfir þau mót sem væru snemma í haust og fann þetta mót í Grikklandi þannig ég sló tvær flugur í einu höggi, ég keppti á hrikalega sterku og flottu móti, hoppaði svo upp í bílaleigubílinn og keyrði yfir á næstu strönd þar sem ég ætla að vera næstu vikuna! 

En þessi undirbúningur hefur gengið ótrúlega vel. Ég var búin að taka 18 mánaða pásu frá síðasta móti bara til að ná jafnvægi og æfa og ég var tilbúin bæði andlega og líkamlega í niðurskurðinn sem er algert lykilatriði ef vel á að ganga. 

Hvernig gekk þér á mótinu?

Mér gekk mjög vel, ég lenti í 2. sæti sem ég held að verði að teljast alveg ágætis árangur. Það voru atvinnumannaskírteini í boði svo við vorum með marga af sterkustu fitnesskeppendum heimsins á mótinu, svo ég er já – mjög ánægð með árangurinn. 

Inga Hrönn Ásgeirsdóttir – lengst til vinstri. Angela Eramo frá Ítalíu, sigurvegari í miðju og Viktoria Hernandes frá Spáni í þriðja sæti er lengst til hægri.

Hvað er framundan hjá þér á næstunni?

Ég ætla að klára vikuna hérna á ströndinni í Nafplio en fer svo beint i áframhaldandi niðurskurð þegar ég kem heim. Ég stefni á að keppa á Heimsbikarmótinu á Spáni í byrjun Nóvember og ég hugsa að ég ljúki svo tímabilinu á Bikarmótinu í Hofi á Akureyri. 

Á Ranný Kramer mikið að þakka

Ég er ekki viss hvað það var sem kveikti áhugann á að keppa í upphafi. Mögulega á ég það allt henni Ranný Kramer, fitnessdrottningu Íslands að þakka. ég hef alltaf æft í sömu líkamsræktarstöð og hún alveg síðan ég var barn og þessi kona er náttúrulega mögnuð. Hún var ofboðslega flott fyrirmynd fyrir unga stelpu sem var að byrja í ræktinni. 

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Ég er einkaþjálfari hjá Reebok svo dagarnir hjá mér byrja þar kl:06:00 á morgnana. Ég stekk svo yfirleitt heim og kem syni mínum af stað í skólann og fer svo oftast sjálf á æfingu svona um níuleitið. Svo er misjafnt hvort ég sé að þjálfa aftur um morguninn eða mæti í vinnuna í Versluninni Momo sem ég rek með mömmu minni. Þar er ég svo eitthvað frameftir degi áður en ég fer að þjálfa aftur. Ég reyni svo að halda síðdeginu og kvöldinu frekar hreinu. Það þarf að læra heima með guttanum og bara vera með fjölskyldunni.

Við erum þessi týpíska vísitölufjölskylda þar sem báðir foreldrar vinna úti þannig við reynum að eiga allavega kvöldin saman, við maðurinn minn erum bæði mikið fyrir að elda góðan mat þannig við erum dugleg saman í eldhúsinu. Alveg merkilegt nokk, þá finnst mér ofboðslega gaman að elda allskonar mat fyrir strákana mína þegar ég er sjálf í niðurskurði. Ég borða í gegnum þá á meðan ég má ekki borða neitt spennandi sjálf.

Geturðu gefið nýjum keppendum góð ráð?

Númer 1. 2. og 3. að finna þjálfara sem þú treystir og er fær í keppnis undirbúningi. Svo bara vera þolinmóður. Við erum að móta líkama okkar og það gerist ekkert á einni nóttu eða einu tímabili. Svo er þetta spurning um æfingu – bæði í ræktinni og svo heima fyrir framan spegilinn, sviðsframkoman og góðar pósur eru algjört lykilatriði þegar upp á svið er komið. 

En það sem mér fannst hvað erfiðast eftir fyrsta mótið mitt var þegar að líkaminn fór að leita aftur í sitt „venjulega“ mjúka form. Það tók mjög á sjálfsmyndina að horfa á sixpakkið hverfa. Þetta sport getur farið illa með mann andlega, svo ég get ekki sagt það nógu oft hvað það skiptir miklu máli að hafa góðan þjálfara, einhvern sem bæði kemur þér í keppnisformið og grípur þig eftir að móti er lokið. 

Exit mobile version