Eitt vinsælasta bætiefnið í dag er án vafa kreatín. Kreatín eykur vöðvamassa, styrk og kraft og gerir það með því að auka fosfórkreatín í líkamanum sem leikur stórt hlutverk í orkubúskap líkamans. Kreatín gagnast sérstaklega vel í þeim íþróttum þar sem átök vara í skamman tíma eins og spretthlaupi, lyftingum eða öðrum átökum. Líkaminn framleiðir sjálfur kreatín og við fáum kreatín úr fæðunni (kjöti og fiski) en talið er að þegar átök og æfingar ná því marki að verða það mikil að fæðan og líkaminn nái ekki að fylla á birgðirnar þá sé kreatín í bætiefnaformi gagnlegt til þess að bæta árangur í íþróttum. Kreatín stækkar vöðva, en ekki er vitað hvort það sé vegna raunverulegrar vefjauppbyggingar eða hvort um vatnssöfnun í vöðva sé að ræða.
Jose Antonio og Victoria Ciccone eru vísindamenn frá Flórída sem komust að því að með því að taka fimm grömm af kreatíni eftir æfingu fimm sinnum í viku í fjórar vikur náðist betri árangur en með því að taka það fyrir æfingu. Árangurinn var mældur í breytingum á líkamsþyngd, fitulausum vöðvamassa og bekkpressustyrk. Rannsóknin stóð ekki lengi en þeir sem tóku þátt í henni voru líkamsræktariðkendur sem stunda líkamsrækt sér til heilsubótar en ekki endilega með keppni í huga.
(Journal International Society of Sports Nutrition, 10: 36, 2013)