Site icon Fitness.is

Hraðvirku vöðvaþræðirnir rýrna fyrst hjá karlmönnum þegar þeir eldast

Vaxmadur001Á milli fertugs og sextugs missa karlmenn um 20% af vöðvamassanum ef þeir lifa hinum þægilega afslappandi lífsstíl uppi í sófa eins og svo algengt er þessa dagana. Vöðvarýrnunin byrjar fyrir alvöru upp úr fertugu hjá karlmönnum þegar engar æfingar eru stundaðar og kyrrsetan hefur tekið völdin. Fjöldi rannsókna hafa hinsvegar sýnt að hægt er að sporna við þessari þróun með því einfaldlega að láta sófann ekki ná völdum. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Maastricth læknaháskólamiðstöðina í Hollandi byrja karlmenn á að glata hraðvirkustu vöðvaþráðunum. Vísindamennirnir báru saman lærvöðvastærðir og báru saman stærð hægu- og hröðu vöðvaþráðana hjá 23 ára karlmönnum annars vegar og 71 árs karlmönnum hins vegar. Hraðvirku vöðvaþræðirnir voru greinilega mun minni hjá þeim eldri.

Í kjölfar fyrstu mælingana byrjuðu eldri karlmennirnir að stunda æfingar sem stóðu í sex mánuði. Stærð hraðvirku vöðvaþráðana jókst um 24% og ummál lærana jókst um 9% sem verður að teljast frábær árangur. Af þessu má draga þá ályktun að aldraðir karlmenn hafi gott af að stunda hraðvirkar æfingar eins og ketilbjöllusveiflur og sambærilegar æfingar.

(Experimental Gerontology, 48:492-498, 2013)

Exit mobile version