Site icon Fitness.is

Hraðmeltar kolvetnategundir ofkeyra líkamann með tímanum

Sliced bread isolated on white background

Aukin hætta á áunninni sykursýki með ofneyslu á hraðmeltum kolvetnategundum. Sífellt er verið að reyna að kortleggja hvaða fæðutegundir auki hættu á ákveðnum sjúkdómum.

Kartöflur fengu neikvæða umfjöllun í niðurstöðum rannsókna sem vísindamenn við Harvardháskólann í Bandaríkjunum birtu nýverið. Rannsóknin sem var viðamikil tók til 85.000 kvenna. Var fylgst með fæðuvenjum þeirra og kom í ljós að þær sem borðuðu mikið af kartöflum voru í meiri hættu en aðrar gagnvart því að mynda svokallaða sykursýki 2.

Sykursýki 2 er áunnin sykursýki sem gjarnan leggst á fólk á og yfir miðjum aldri. Íslendingar borða mikið af kartöflum. Í rannsókninni var hinsvegar verið að fjalla um alla tegundir af kartöflum, ekki bara þessar dæmigerðu soðnu kartöflur sem við eigum að venjast. Franskar, bakaðar, soðnar og einnig sem flögur og í ýmsu snakkformi.

Skýringin á því að kartöflur geti leitt til áunninnar sykursýki hefur líklegast ekkert með kartöflur sem slíkar að gera heldur þá kolvetnategund sem í þeim er. Ávextir og grænmeti er gjarnan flokkað niður eftir glýsemíugildi þess, en það er mælikvarði á það hversu hratt kolvetnin frásogast í meltingu. Kartöflur eru þar ekki einar um sökina þar sem fjöldi kolvetnategunda hafa hátt glýsemíugildi.

Kenningin snýst um það að hátt glýsemíugildi sé óæskilegt og valdi með tímanum auknu viðnámi gegn insúlíni. Með auknu viðnámi gegn insúlíni versnar hæfileiki líkamans til þess að vinna úr sykurtegundum. Ætla má þannig að þegar mikið er borðað af einföldum og hraðmeltum kolvetnategundunum eins og hvítum strásykri sé briskirtillinn og meltingarkerfið ofkeyrt með tímanum og næmni þess gagnvart insúlíni dempuð niður. Afleiðingin er síðan aukakíló þar sem líkaminn á erfiðara með að vinna úr sykrinum.

American Journal Clinical Nutrition, 83:284-290, 2006

Exit mobile version