Það er ekki með öllu áhættulaust að fara í fitusog. Þessi aðferð getur verið hættuleg en hún felst í grófum dráttum í að troða röri inn í líkamann í gegnum húðina á fitusvæði og sjúga fituna út. Dæmi eru um sýkingar og jafnvel dauðsföll.
Algengasta og vinsælasta fegrunaraðgerðin sem gerð er í heiminum í dag er fitusog. Fólk streymir á lýtalæknastofur til þess að fá auðvelda leið frá aukakílóunum.
Þýskir vísindamenn hafa sýnt fram á að skarpar hátíðni-hljóðbylgjur geta dregið úr mittismáli með því að drepa fitufrumur á maga og mjöðmum án „teljandi“ aukaverkana. Sumir þeirra sem fóru í þessa meðferð hjá þýsku vísindamönnunum minnkuðu um allt að 5 sm í mittismáli í kjölfarið en meðferðin tekur einn til einn og hálfan tíma. Einungis 11,8% sjúklinga tilkynntu um aukaverkanir sem fólust í eymslum, marblettum, hörðum klumpum, bólgum og sársauka. Engu að síður halda höfundar þessarar aðferðar því fram að hún sé hættulaus og sýni góða virkni.
(Aesthetic Plastic Surgery, 34: 577-582)