Site icon Fitness.is

Hættan við djúpar beygjur

Við höfum áður sagt frá rannsókn sem kynnt var 1961 og framkvæmd af Karl Klein við Háskólann í Texas. Þar kom fram að djúpar hnébeygjur losuðu um liðbönd í hnjám. Í kjölfar þessarar rannsóknar hafa flestir þjálfarar mælt gegn djúpum hnébeygjum. Þetta er ein aðal ástæðan fyrir vinsældum fótapressunnar og svonefndra „kvartbeygja“ sem eru mjög grunnar beygjur. Í dag er búið að gera hinar ýmsu rannsóknir sem sýna fram á að djúpar hnébeygjur styrki liðböndin í kringum hnén – að því gefnu að þær séu framkvæmdar rétt. Þessar rannsóknir hafa sýnt fram á að álagið á liðböndin að framan og aftan minnkar eftir því sem hnéð bognar meira. Mikilvægt er að hafa stjórn á lyftunni og varast að fara það neðarlega að átakið slakni á lærvöðvunum. Við slíkt átak myndast óþarfa álag á hnén.

Dýptin á hnébeygjunum ætti helst að ráðast af getu hvers og eins. Erfitt er að framkvæma hnébeygju rétt nema ákveðinn liðleiki sé til staðar og hann er mjög persónubundinn. Hætt er við að sé um stífleika að ræða í nára og neðra baki að menn halli sér of mikið fram þegar farið er niður. Æskilegast er að halda sömu stöðu á bakinu alla leiðina niður. Forsenda þess er liðleiki. Ef farið er niður í 90 gráður þannig að lærin séu samsíða gólfinu er álagið mest á lærvöðvana sjálfa. Eftir því sem farið er dýpra eykst álagið á rassvöðvana. Þeir sem hafa heilbrigð hné geta gert djúpar hnébeygjur án vandræða séu þær gerðar rétt. Þeir sem eru með gigt eða sárar hnéskéljar ættu hinsvegar að finna sér heppilegri æfingu.

(J Assoc Phys Ment Rehabil, 15: 6-11, 1961 og National Strength and Conditioning Association Hot Topics Reports, 2009)

Exit mobile version