Site icon Fitness.is

Glýsemíugildi skiptir ekki minna en miklu máli

EpliEG7_9692Margir næringarfræðingar hafa fremur viljað leggja áherslu á að neyslu kornmetis og trefja í stað þess að veita glýsemíugildi fæðutegundana sérstakan gaum. Thomas Wolever við Torontoháskóla hefur ásamt fleiri vísindamönnum haldið því fram að glýsemíugildið sé mikilvægur mælikvarði sem skipti ekki síður máli en trefjainnihald.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi fæðutegunda með lágt glýsemíugildi þegar ætlunin er að léttast. Kenningin er sú að eftir því sem frásog kolvetna er hægara og jafnara verði sveiflur í blóðsykri ekki jafn öfgafullar og þegar fæðutegundir með hátt glýsemíugildi eru borðaðar. Ef blóðsykurinn hækkar skyndilega framleiðir líkaminn mikið af insúlíni sem vinnur á sykrinum. Fái líkaminn hinsvegar boð um að meira af kolvetnum sé í blóðrásinni en raunin er verður umframinsúlínið til þess að blóðsykurinn fellur niður úr öllu valdi. Þetta kemur heim og saman við geðsveiflur og hungurverki sem skella á sumum skömmu eftir neyslu einfaldra kolvetna sem gjarnan má finna í nammi, sykruðum gosdrykkjum og reyndar mörgum fæðutegundum nútímans. Fæðutegundir með lágt glýsemíugildi valda síður þessum miklu sveiflum í blóðsykrinum. Það er blóðsykurinn sem ræður mestu um það hvort við finnum til hungurs eða ekki. Falli hann hratt niður er líklegt að sjálfsaginn falli um leið og það sem er innan seilingar verður borðað sama hvað það heitir. Sjálfsstjórn er betri ef blóðsykurinn er í jafnvægi og það er kenningin sem er að baki því að glýsemíugildi fæðutegunda skipti miklu máli. Það þarf líklega ekki að leita langt til að finna fólk sem getur vitnað um að skortur á sjálfsaga hafi endað lífdaga annars ágætis mataræðis. Mikilvægi stöðugleika í blóðsykri er því ekki minna en mikið.

Fæðutegundir með lágt glýsemíugildi eru einnig heppilegar í þolþjálfun vegna jafnara frásogs kolvetna inn í blóðrásina. Matseðlar ættu því að taka tillit til glýsemíugildis og skiptir þar engu hvort um íþróttamenn eða leikmenn er að ræða.

(European Journal of Clinical Nutrition, 67: 522-531, 2013)

Exit mobile version