Site icon Fitness.is

Ekki sleppa máltíðum

Sá sem er að reyna að losna við aukakílóin kynni að halda að það væri hið besta mál að sleppa úr einni og einni máltíð. Þegar upp er staðið borgar það sig hinsvegar alls ekki. Af hverju ekki? Er ekki þannig verið að borða færri hitaeiningar?Ef þú ert að reyna að létta þig er lykilatriði að halda reglu og jafnvægi á því sem þú ert að gera í mataræðinu. Við vitum samkvæmt rannsóknum að þeir sem sleppa morgunmat eru feitari en aðrir. Við vitum líka að þeir sem borða sjaldan yfir daginn eru feitari en gengur og gerist. Hvers vegna? Það að sleppa úr máltíð þýðir einfaldlega það að þú verður svengri en ella næst þegar kemur að því að borða. Og hvað þá? Jú, þú borðar miklu meira en þú hefðir annars gert vegna þess að blóðsykurinn er orðinn svo lágur að sjálfsstjórnin er rokin út í veður og vind. Það er lykilatriði þegar ætlunin er að létta sig að borða reglulega. Megintilgangurinn með því er að gæta þess að verða aldrei svengri en góðu hófi gegnir. Sá sem kemur heim eftir erfiðan vinnudag og er búinn að sleppa úr einni eða fleiri máltíðum á erfitt með að halda aftur af átinu þegar hann opnar ísskápinn heima hjá sér. Hætt er við að sé blóðsykurinn orðinn mjög lágur að öllum göfugum fyrirætlunum um að borða hollan, næringarríkan og hitaeiningalítinn mat verði hent út um gluggann. Lágur blóðsykur dregur úr einbeitingu og þar með afköstum yfir daginn. Versta aukaverkunin er hinsvegar eins og áður sagði sú að sjálfsaginn minnkar í sama hlutfalli og blóðsykurinn lækkar.

Exit mobile version