Site icon Fitness.is

Efni í orkudrykkjum geta valdið kvíða hjá ungmennum

Orkudrykkir eru drykkir sem innihalda mikið magn örvandi efna. Þeir eru flestir sætir en ekki endilega orkuríkir og ættu því fremur að kallast örvandi frekar en orkumiklir. Þessi örvandi efni hafa ýmsar og óvæntar aukaverkanir sérstaklega þegar þeir eru notaðir eins og svaladrykkir eða blandaðir með áfengi

Þegar orkudrykkjum er blandað við áfengi er ekki von á góðu. Áhrif orkudrykkja draga úr ölvunartilfinningu og ýta undir ofmat á eigin getu og stuðla þannig að óæskilegri hegðun eins og t.d. ölvunarakstri.

Þegar áfengisvíman fjarar út er virkni koffínsins enn til staðar sem hefur alvarlegar afleiðingar.

Hraður hjartsláttur veldur því að fórnarlömb lýsa því þannig að þeim finnist dauðinn einn framundan. Orsökin er gríðarlega hraður hjartsláttur og mikill þungi og sársauki fyrir brjóstinu sem veldur öndunarerfiðleikum og þeirri tilfinningu að brjóstkassinn sé að springa.

Sumir orkudrykkir innihalda jafn mikið af koffíni og 4 kaffibollar sem þýðir að sá sem drekkur 4 – 6 bauka á einum degi fær sama koffínskammt og er í 16-24 kaffibollum.

Hófleg neysla orkudrykkja getur verið viðeigandi við ákveðnar aðstæður. Þeir eru ætlaðir til örvunar og margir nota þá til að hressa sig við þegar þeir þurfa uppörvun. Nokkuð sem hljómar vel þegar skynsemin ræður neyslunni. Því miður er fátt sem bendir til að skynsemi stjórni neyslunni. Sala orkudrykkja veltir árlega milljörðum á Íslandi og flest bendir til að þeir hafi tekið við af gosdrykkjum sem svaladrykkir.

Í litlu magni valda orkudrykkir ekki óþægindum og hafa ekki endilega neikvæð áhrif. Gallinn er sá að áhrifin hafa mild ávandabindandi áhrif eins og kaffidrykkja sem kallar á viðvarandi og jafnvel sívaxandi neyslu.

Orkudrykkir verða varasamir þegar neyslan fer að telja nokkra bauka á stuttum tíma. Hér á landi er hámark leyfilegs koffíns 320 mg/l en oftar en ekki er ýmsum öðrum efnum bætt í þessa drykki.

Foreldrar þurfa að girða sig í brók. Orkudrykkir geta haft mikil áhrif á kvíðatilfinningu hjá ungum karlmönnum.

Samkvæmt Ástralskri rannsókn hafa orkudrykkir mikil áhrif á kvíðatilfinningu hjá ungum karlmönnum en þeir reyndust ekki hafa áhrif á þunglyndi eða streitu. Aðrar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á samband á milli orkudrykkja, kvíða og andlegra vandamála.

Barn sem drekkur nokkra orkudrykki og fær þannig koffín sem samsvarar 16-24 kaffibollum verður eðlilega fyrir ýmsum aukaverkunum. Kvíði er vaxandi vandamál meðal ungmenna og ýmislegt bendir til að foreldrar hafi sofnað á verðinum.

Hér á landi er bannað að selja börnum yngri en 18 ára orkudrykki vegna koffíns. Það er hinsvegar erfitt að hafa eftirlit með neyslu barna og ungmenna á þessum drykkjum og því þurfa foreldrar að girða sig í brók og vakna til meðvitundar um neyslu sinna barna. Sífellt berast fréttir af kvíða sem vaxandi vandamáli meðal ungmenna og hefur það gengið svo langt að nánast er búið að sjúkdómsvæða kvíða. Kvíði er eðlileg tilfinning sem börn þurfa að læra að lifa með en drykkir sem ýkja þessa tilfinningu úr hófi eru varasamir.

(ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/24019267)

Exit mobile version