Svisslendingurinn AG Dullo er vísindamaður sem endurskoðaði ýmsar rannsóknir sem hafa verið gerðar og komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að auka efnaskiptahraða og hitamyndun um 15% með því að blanda saman nokkrum hitamyndandi efnum. Flest bætiefnin sem markaðssett eru í dag eru talin hraða efnaskiptum um 2-5% og því verður að teljast nokkuð gott ef framtíðin ber það í skauti sér að hægt verði að hækka hlutfallið upp í 15%. Eins og staðan er í dag er hér einungis um vangaveltur að ræða og framtíðarsýn sem er ekki endilega handan við hornið.
(Obesity Reviews 12: 866-883, 2011)