Site icon Fitness.is

Átök í fitnessheiminum

Iceland Open er ekki á vegum IFBB Alþjóðasambandsins

Ætla má af umfjöllun í fjölmiðlum að IFBB Alþjóðasambandið sé að halda fitnessmót í Laugardalshöll 15. desember. Viðburðurinn heitir Iceland Open og gengur einnig undir nafninu IFBB Pro League/NPC. Þessi viðburður er þó ekki eins og ætla mætti á vegum IFBB Alþjóðasambandsins sem haldið hefur fitnessmót hér á landi síðan 1982.

Hér á landi hafa nánast öll fitnessmót frá upphafi verið haldin undir merkjum IFBB Alþjóðasambandsins. Á þessu eru örfáar undantekningar og nú ber svo við að annar mótshaldari – sem virðist vera óþekktur – er kominn fram á sjónarsviðið. Engu líkara er en að viljandi sé nafni IFBB haldið á lofti í tengslum við þennan viðburð og því er tilgangur þessarar greinar að koma í veg fyrir misskilning.

Í umfjöllun um þennan viðburð 15. desember hefur enginn fjölmiðill á Íslandi fjallað um muninn á þessum tveimur mótshöldurum.

Mun sem kemur ekki til af góðu.

Jim Manion settur á bannlista hjá WADA Alþjóðalyfjaeftirlitinu

IFBB Alþjóðasambandið sleit öllu samstarfi við IFBB Pro League/NPC í Bandaríkjunum fyrir um ári síðan vegna brota á reglum um lyfjaeftirlit og vegna brota á reglum við dómgæslu. Fram að því hafði IFBB Pro League/NPC sem er einkafyrirtæki í eigu Jim Manion haldið atvinnumannamót í fitness og vaxtarrækt.

Í kjölfarið setti WADA Alþjóðalyfjaeftirlitið Jim Manion eiganda IFBB Pro League/NPC á bannlista yfir aðila sem ekki mega tengjast íþróttamótum né íþróttamönnum.

Ekki liggur fyrir hver er mótshaldari og beri ábyrgð á mótinu sem haldið verður 15. desember í Laugardalshöllinni. Upplýsingar um mótshaldara er hvergi að finna á vefsíðu viðburðarins icelandopen.is.

Helstu verðlaun fyrir sigurvegara mótsins eru hinsvegar þátttökuréttur á mótum IFBB Pro League/NPC sem beint eða óbeint tengist mótum Jim Manion. Jim Manion er eigandi IFBB Pro League/NPC fyrirtækisins sem fram til þessa hafa aðallega haldið mót í Bandaríkjunum.

Forsvarsmönnum IFBB hér á landi þykir miður að í fjölmiðlum hefur ekki verið gerð tilraun til að greina þarna á milli. Annars vegar er mótshaldari sem rekja má til brottræks aðila úr íþróttahreyfingunni og hinsvegar IFBB Alþjóðasambandið sem hefur haldið mót hér á landi síðan 1982.

Nafnaruglingur IFBB og IFBB Pro League

Í kjölfar þess að Jim Manion eigandi IFBB Pro League/NPC var settur á bannlista WADA bannaði IFBB Alþjóðasambandið honum að nota skammstöfun IFBB í nafni fyrirtækisins þar sem það táknar heiti IFBB (International Federation of Fitness and Bodybuilding).

Hinn óþekkti mótshaldari IFBB Pro League/NPC á Iceland Open viðburðinum hefur engu að síður notað nafnið IFBB Pro League. Þannig er því eðlilega og hugsanlega viljandi ruglað saman við skammstöfun IFBB Alþjóðasambandsins.

IFBB Pro League/NPC verður hér eftir nefnt Pro League/NPC í framtíðinni lesendum til einföldunar. Það er einungis IFBB Alþjóðasambandið sem hefur leyfi til að bera IFBB skammstöfunina.

Á huldu hver er mótshaldari Iceland Open

IFBB – Alþjóðasamband líkamsræktarmanna starfar í 197 löndum og var stofnað 1946 af bræðrunum Joe og Ben Weider. Núverandi forseti þess er Rafael Santonja og hér á landi eru það Einar Guðmann og Sigurður Gestsson sem eru í forsvari þess. IFBB er aðili að GAISF, International Games Association, UNESCO, ICSSPE og er viðurkennt sem eina alþjóðlega íþróttasambandið í heiminum sem heldur fitness- og vaxtarræktarmót í samstarfi við WADA Alþjóðalyfjaeftirlitið.

Á heimasíðunni icelandopen.is sem kynnir mótið 15. desember kemur ekki fram hver mótshaldari er né hverjir eru í forsvari fyrir mótið. Í fjölmiðlum hefur hinsvegar Konráð Valur Gíslason einkaþjálfari og eigandi ifitness.is (ekki fitness.is) átt greiðan aðgang að mbl.is, visir.is og DV.is þar sem hann, keppendur og viðburðurinn hafa fengið mikla kynningu. Ekkert í þeim kynningum hefur varpað ljósi á muninn á þessum nýju keppnishöldurum og mótum IFBB hér á landi né hver raunverulega stendur að baki Iceland Open eða Pro League/NPC í Laugardalshöll.

Ekki hefur heldur komið fram í umfjöllun fjölmiðla að viðburðurinn sé ekki haldinn á vegum IFBB Alþjóðasambandsins sem ætti eitt og sér að þykja frétt. Líklega er það eins með blaðamenn og keppendur að vegna nafnaruglings eru menn ekki að átta sig á að einkafyrirtækið Pro League/NPC og IFBB Alþjóðasambandið er ekki einn og sami hluturinn.

Nokkrir keppendur á leið í keppnisbann

Forsvarsmenn IFBB Alþjóðasambandsins hér á landi hafa sett sig í samband við Lyfjaeftirlit Íslands varðandi mögulegar afleiðingar fyrir keppendur vegna þátttöku á mótinu 15. desember. Ekki liggur fyrir hvort Jim Manion tengist mótinu með beinum hætti en að ráði Lyfjaeftirlits Íslands er viðeigandi að kynna keppendum stöðu Jim Manion á bannlista WADA hvort sem hann tengist mótinu eða ekki.

Hitt er ljóst að mótshaldarar Iceland Open leggja mikla áherslu á að kynna að sigurvegarar geti öðlast keppnisrétt á mótum Jim Manion. Sigurvegarar fjölda flokka fá einnig atvinnumannakort sem þeir þurfa að greiða há árgjöld af sem renna til fyrirtækis Jim Manion. Gefin hafa verið út á annað þúsund atvinnumannakort síðastliðið ár.

Reglur IFBB Alþjóðasambandsins eru skýrar varðandi þátttöku keppenda sem keppa á mótum sem eru ekki viðurkennd. Reglurnar taka af allan vafa um að fyrrum keppendur IFBB sem keppa hjá Pro League/NPC 15. desember munu allir fara í keppnisbann. Um það gilda sambærilegar reglur og hjá flestum öðrum íþróttasamböndum óháð því hver íþróttagreinin er.

Klofningur sem kemur íþróttinni illa

Spurningin er hver þróunin í fitnessheiminum verður á næstunni. Klofningur sem þessi kemur íþróttinni illa. IFBB Alþjóðasambandið hefur unnið að því hörðum höndum að öðlast viðurkenningu sem íþróttasamband og hefur náð ágætum árangri í þá áttina.

Hugsanlega stóðu þessi sambandsslit þó lengi fyrir dyrum. IFBB hafði ekki val um annað en að reka Pro League/NPC vegna meintra brota. Það fer illa saman að stefna að samstarfi við íþrótta- og Ólympíusambönd heimsins á sama tíma og horft er upp á gróf brot á reglum sem tekin eru alvarlega af íþróttasamböndum og WADA.

Einar Guðmann og Sigurður Gestsson,
forsvarsmenn IFBB Alþjóðasambandsins á Íslandi.

Exit mobile version