Site icon Fitness.is

Athyglisverðir punktar í næringarrannsóknum

Eitt af því athyglisverðasta sem rannsóknir síðastliðins árs hafa skilið eftir sig eru áhrif þess að taka saman nokkur fæðubótaefni á vöðvamassa. Menn kalla þetta „stacking“ á enskunni en með því að taka saman lefsínamínósýruna, HMB (β-Hydroxy β-methylbutyric sýra) og fosfatíð (PA) eftir styrktarþjálfun er hægt að auka vöðvavöxt umtalsvert.


Lefsínamínósýran stuðlar með beinum hætti að nýmyndun vöðva og hindrar niðurbrot vöðvaprótína sem skilar á endanum meiri vöðvavexti með því að virkja sameindaskynjunarferli mTOR (e. mammalian target of rapamycin) markprótíns fyrir rapamycin. mTOR ferlið leikur stórt hlutverk í að koma af stað vöðvauppbyggingu.

Sýnt hefur verið fram á áhrif lefsínamínósýrunnar á vöðvauppbyggingu í nokkrum rannsóknum en virknin er mest í kjölfar styrktarþjálfunar. Rannsókn sem kennd er við Walker og félaga sýndi fram á að þegar lefsínamínósýrur voru teknar eftir æfingar jókst virkni mTOR ferlisins í nokkra klukkutíma og nýmyndun vöðva jókst í kjölfarið í samanburði við hóp sem fékk ekki lefsínamínósýrur eftir æfingar.

Fosfatíð (PA) er fituefnasamband í frumuhimnum sem á þátt í hinum ýmsu frumuboðum, þar á meðal boðum sem þjóna því hlutverki að koma af stað vöðvavexti. Það hefur lengi verið ljóst að mTOR ferlið leikur stórt hlutverk í uppbyggingarferlinu sem fer í gang í kjölfar styrktaræfinga og talið hefur verið fram að þessu að mTOR ferlið fari í gang vegna boða frá insúlínáþekkum vaxtarþætti (IGF-1) en nýlegar rannsóknir benda til að aukning á fosfatíðum geti ein og sér virkjað mTOR ferlið í kjölfar æfinga án þess að þörf sé á IGF-1 insúlínáþekka vaxtarþættinum.

Rannsókn á vegum O´Neill og félaga sýndi fram á að hægt var að virkja mTOR ferlið með því að rækta einangraðar frumur með fosfatíðum. Í sömu rannsókn sýndu vísindamennirnir einnig fram á að hægt var að virkja mTOR ferlið þrátt fyrir að insúlín-líki vaxtarþátturinn í frumunum væri heftur með efnameðferð. Fosfatíð gátu því virkjað mTOR ferlið án aðkomu boða frá insúlín-líka vaxtarþættinum. Það var sömuleiðis athyglisvert að álagið sem myndaðist á vöðvafrumurnar eftir styrktarþjálfun stuðlaði að myndun ensímsins fosfólípasa D sem virkaði sem hvati á myndun fosfatíðs (PA).

Í ljósi þess að fosfatíð eykur nýmyndun vöðva í gegnum mTOR ferlið rannsakaði hópur vísindamanna hvort fosfatíð gætu haft áhrif á vöðvamassa og styrk. Þar voru áhrif fosfatíða könnuð á styrk 16 karlmanna sem allir höfðu mikla reynslu af lyftingum. Þeim var skipt í tvo hópa þar sem annar hópurinn fékk 750 mg af fosfatíðum á dag en hinn hópurinn fékk lyfleysu. Þeir sem fengu fosfatíð bættu sig á átta vikum um 12,7% í hnébeygjustyrk og bættu á sig 2,6% í vöðvamassa á meðan framfarir voru mun minni hjá samanburðarhópnum sem bætti litlu sem engu á sig í vöðvamassa.

Í stuttu máli benda niðurstöður rannsókna því til að hægt sé að virkja mTOR ferlið á tvennan hátt – óháð insúlíni með fosfatíðum og háð insúlíni með lefsínamínósýrunni. Þaðan kemur kenningin um að það borgi sig að taka saman fosfatíð og lefsín til að stuðla að vöðvavexti.

(Med Sci Sports Exerc 2011; 43, 2249-2258 og J Physiol 2009; 587, 3691-3701)

Exit mobile version