Site icon Fitness.is

Ásakanir um að ráðlagðir dagsskammtar hafi fyrst og fremst átt að þjóna hagsmunum framleiðenda

Það var árið 1980 sem bandaríska landbúnaðarráðuneytið gaf fyrst út svonefnda ráðlagða dagsskammta (RDS) hinna ýmsu næringarefna. Aðrar þjóðir, þar á meðal við Íslendingar öpuðum eftir þeim og lögðum línurnar í þeim anda sem gert var hið vestra. Á þessum tíma var offita ekki teljandi vandamál miðað við hvað hún er í dag, en um 15% flokkuðust í offituflokkinn á móti 33% árið 2011 í Bandaríkjunum. Offita hafði verið nokkuð stöðug um 15% á tímabilinu 1960-1980 en tók síðan að hækka jafnt og þétt.

Bæði þá og nú hefur alltaf verið mælt með minni fituneyslu, minni neyslu á mettuðum fitusýrum, kólesteróli og viðbættum sykri og salti. Aftur á móti var mælt með aukinni neyslu á kornmeti, ávöxtum og grænmeti. Í ritstjórnargrein Nutrition tímaritsins eru bornar fram ásakanir um að ráðleggingar um samsetningu fæðunnar hafi sprottið af hagsmunagæslu bænda og framleiðenda en ekki verið tilkomnar vegna umhyggju fyrir heilsu almennings. Í greininni er áréttað að vísindamenn ættu að leggja áherslu á sannanir og rökstuðning fyrir tilstilli rannsókna þegar ákvarðanir um fæðusamsetningu eru teknar. Annað sé ekki til þess fallið að skapa traust almennings þegar grannt er skoðað.

(Nutrition, 27: 1078-1079, 2011)

Exit mobile version