Site icon Fitness.is

Anna og Heiðrún í 12 sæti á heimsmeistaramótinu

Í kvöld lauk Heimsmeistaramótinu í fitness hér í Brno í Tékklandi. Anna og Heiðrún sem kepptu í sitthvorum flokknum, undir og yfir 167cm flokkunum, höfnuðu báðar í 12 sæti. Þetta er besti árangur sem náðst hefur á heimsmeistaramóti hjá IFBB. Það er broslegt að þær skuli báðar hafa hafnað í tólfta sæti, en þær stóðu sig báðar frábærlega vel og eiga eflaust eftir að gera garðinn frægann í fitness. Anna Margrét Ólafsdóttir hafnaði í þrettánda sæti í samanburðinum, en ellefta sæti í danslotunni en Heiðrún Sigurðardóttir hafnaði í tólfta sæti í samanburðinum, en í níunda sæti í danslotunni. Árangur Önnu og Heiðrúnar sýnir að Ísland er á réttri leið í þessum keppnum. Fram til þessa höfum við sett það markmið að komast í fimmtán manna úrslit, en þessi árangur sýnir að nú ber að setja markið hærra. Þær stöllur eru í yngri kantinum miðað við þá keppendur sem keppa á þessu heimsmeistaramóti, enda báðar tvítugar og þótti yfirdómaranum Lisser Frost Larsen mikið til koma að þær væru báðar unglingar. Í nóvember fá þær tækifæri til þess að keppa á jafnari grundvelli en nú um helgina, þar sem fyrir dyrum stendur að þær Anna og Heiðrún fari til Portúgal þar sem heimsmeistaramót unglinga í fitness verður haldið. Mynd Við munum sýna myndir frá HM við fyrsta tækifæri en á tveimur meðfylgjandi myndum má sjá heildarsigurvegara í fitness kvenna sem er Iveta Statsenko frá Rússlandi í miðjunni, Gabriela Misnova frá Slóvakíu vinstramegin og Laurence Sarrazin-Habsi frá Frakklandi sem er hægramegin og varð þriðji.  Zoltan Kormos sem mynd fylgir af er frá Ungverjalandi en hann sigraði í tilraunakeppni fitness karla sem þótti hafa heppnast frábærlega. Karlarnir komu fram í samanburði og gerðu danslotu sem undantekningalaust var frábær. Meira um það síðar.

Bestu kveðjur frá Brno.
Exit mobile version