Site icon Fitness.is

Alexandra Kobielak heimsmeistari

Um helgina var haldið heimsmeistaramót kvenna í fitness og vaxtarrækt sem og parakeppni í vaxtarrækt. Mótið var haldið í Varsjá í Póllandi og komu keppendur að úr öllum áttum. Alls voru 116 keppendur mættir til leiks í fitness og vaxtarrækt, þar af 58 konur frá 33 löndum sem kepptu í fitness. Eins og búist var við var keppnin gríðarlega spennandi. Fyrir hönd Íslands mættu þær Guðrún Gísladóttir, Íslandsmeistari og Sif Garðarsdóttir. Keppt er í tveimur hæðarflokkum, yfir og undir 160 cm og kepptu þær báðar í hærri flokknum. Sif Garðarsdóttir ætlaði að keppa í lægri flokknum, en eftir að hafa farið í gegnum þrjár tölvumælingar var ekki hægt að koma henni niður fyrir 161 cm og þurfti hún því að keppa hærri flokknum. Í honum voru 33 keppendur og þar af komust 15 áfram í úrslit. Ekki fór svo að okkar keppendum tækist að komast í þann hóp en engu að síður voru þær í sínu besta formi og höfðu greinilega náð framförum frá síðasta móti. Hér á landi hafa þær stöllur verið fremstar í flokki á fitnesskeppnum og ljóst að þær eiga framtíðina fyrir sér í keppnum sem þessum. Það er fróðlegt að skoða meðalaldur efstu keppenda á heimsmeistaramótinu. 15 efstu í hvorum flokki eru að meðaltali 29 ára og tvær þær elstu voru 35 ára. Pólverjar voru sigursælir á mótinu enda fór svo að það voru pólskar stúlkur sem sigruðu báða flokkana. Alexandra Kobielak sigraði í undir 160 cm flokknum og reyndar heildarflokkinn líka, en hún sigraði líka á Evrópumótinu sem haldið var fyrr í sumar á Spáni. Það var Kamila Porczyk sem sigraði yfir 160 cm flokkinn.

Exit mobile version