Það kannast flestir við að dagarnir í æfingasalnum eru misjafnir. Einn daginn leika öll lóð í höndum okkar og góð tilfinning streymir um líkamann í öllum átökum. Svo koma daprir dagar þar sem allt er erfitt og ekkert virðist ganga. Flestir kannast sömuleiðis við að ná að einbeita sér betur í miklum átökum seinnipart dags, frekar en snemma morguns. Líkaminn virðist betur undir það búinn að fara í mikil átök seinnipartinn heldur en snemma að morgni þó ekkert mæli á móti því að æfa á morgnana.
Vísindamenn hafa reynt að varpa ljósi á það hvers vegna við eigum misjafna daga í ræktinni. Í fyrstu kann einhver að halda að líklegast sé að þarna sé um sveiflur í hormónakerfi okkar að ræða en raunin er sú að skýringin liggur helst í hitastigi líkamans.
Það voru vísindamenn frá Ástralíu og Nýja Sjálandi sem komust að því að það væri breyting á hitastigi líkamans en ekki testósterón eða cortisol hormónið sem hefði þessi áhrif á frammistöðu okkar að gera. Frammistaðan var mæld með lóðréttum stökkum, togi og hnébeygju. Hitastig líkamans breytist yfir daginn en er hæst seinnipart dags. Frammistaða okkar í miklum átökum fylgir þessum hitabreytingum. Ef ætlunin er að mæla árangur eða ná að lyfta sem mestum þyngdum er hugsanlegt að þessi niðurstaða komi að gagni.
(Journal Strength Conditioning Research, 25: 1538-1545, 2011)