Site icon Fitness.is

Æðar stífna meira eftir æfingar fyrir efri búk en neðri

hjarta_stongHjarta- og kransæðakerfið eru háð eðlilegu blóðflæði um líkamann og það er vel þekkt aukaverkun hjartasjúkdóma að æðar verða stífar og skilvirkni þeirra til að sinna hlutverki sínu verður ekki eins sveigjanleg og hún á að vera. Stífar æðar eru afleiðing versnandi efnaskiptaheilsu sem getur falið í sér fjölmörg vandamál sem oftast eru rakin til hjarta- og kransæðasjúkdóma. Ber þar helst að nefna of háan blóðþrýsting, insúlínviðnám, áunna sykursýki, mikla blóðfitu og kviðfitusöfnunar. Kviðfitusöfnun er fínt orð yfir það að vera með ístru.

Það einkennilega er að æfingar geta líka aukið stífni æða.  Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Háskólann í Basel í Sviss stífnuðu æðar meira eftir æfingar þar sem tekið var á efri hluta líkamans í samanburði við neðri hlutann eða heildrænar æfingar. Æfingar á efri hluta líkamans leggja meira álag á hjartað og æðarnar vegna þess að þær taka á frekar litla vöðva. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að þolæfingar koma hinsvegar í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif æfinga á æðarnar. Það væri því vel við hæfi að vaxtarræktarmenn og annað líkamsræktarfólk endi æfingar á að taka þolæfingar til að draga úr æðastífni og blóðþrýstingi.
(International Journal Sports Medicine, vefútgáfa 15 júlí 2015)

Exit mobile version