Ef marka má niðurstöður vísindamanna í Túnis sem endurskoðuðu eldri rannsóknir er best að æfa seinnipart dags og verst á morgnana. Eflaust hefur ekki þurft annað en að spyrja þá sem hafa æft árum saman til þess að komast að því að við erum sterkust þegar líður á daginn. Frammistaða okkar í þolfimi og styrk er nátengd líkamshitanum en hann er mestur á milli klukkan fjögur og sex á daginn. Ef æft er snemma dags er líklegt að líkaminn sé ekki upp á sitt besta hvað frammistöðu varðar. Öllu má venjast, en íþróttamenn ættu að venja sig á að æfa á sama tíma og keppt er. Ef þú átt hinsvegar einungis kost á því að æfa á morgnana er það að sjálfsögðu betra en að æfa ekki. Hér er verið að tala um það hvenær líkaminn hámarkar getu sína til átaka. Morgunæfingar eru betri en engar – miklu betri. Það er gott að minna sig á það annað slagið að árangurinn í ræktinni byggist fyrst og fremst á því að mæta.
(Chortle Strength and Conditioning Research, 26: 1984-2005, 2012)