Site icon Fitness.is

Ýmsar reglubreytingar hjá alþjóðasambandi líkamsræktarmanna

Ársþing IFBB alþjóðasambands líkamsræktarmanna var haldið í nóvember 2010 og samþykktar voru hinar ýmsu breytingar sem legið hafa í farvatninu undanfarið ár. Sumar breytingarnar munu hafa áhrif á keppnina hér heima og þykir því rétt að renna yfir fréttnæmustu atriðin.

Ný keppnisgrein: Bikíni módel
Samþykkt var á ársþingi IFBB að hefja keppni í nýrri keppnisgrein sem nefnist Bikini models. Þessi grein verður að teljast afar lík módelfitness sem keppt hefur verið í hér á landi undanfarin ár, enda var byrjað að keppa í módelfitness hér heima eftir kynningarmót sem haldið var í Búdapest á sínum tíma. Það er hinsvegar ekki fyrr en núna sem alþjóðasambandið tekur þessa keppnisgrein upp á arma sína.  Í lýsingu á keppnisgreininni er lögð áhersla á mjúkar línur, fegurð, heilbrigðan lífsstíl og mataræði en engin áhersla er á vöðvaskil. Dómforsendur leggja áherslu á samræmi í hlutföllum, líkamsáferð og andlitsfegurð. Hár, förðun, húðáferð og húðlitur eru atriði sem horft er til í dómforsendum. Skýr vöðvaskil eru einfaldlega ekki æskileg.  
Keppt verður í tveimur lotum í Bikini módel. Fyrsta lotan felur í sér bikini í lit að eigin vali og háhælaða skó og hver og einn keppandi byrjar á T-göngu inn á sviðið og við tekur samanburður í tveimur stöðum – að framan og aftan. Sex efstu fara áfram í úrslitalotu þar sem keppendur byrja sömuleiðis á T-göngu inn á sviðið og fara tvisvar í samanburð í tveimur stöðum – að framan og aftan – ekki eru teknir fjórðungssnúningar.
Eins og ofangreind lýsing ber með sér er þessi keppnisgrein afar lík módelfitness eins og við eigum að venjast.  Hinsvegar er ekki keppt í íþróttalotu erlendis eins og hér heima.
Nú spyrja sjálfsagt margir keppendur hvaða áhrif þessar breytingar hjá alþjóðasambandinu hafa á módelfitness hér heima. Það jákvæða við þessa nýjung er að nú eiga íslenskir módelfitnesskeppendur kost á því að fara erlendis til keppni eins og fitness- og vaxtarræktarkeppendur.  Að öðru leyti hafa þessar breytingar lítil áhrif til að byrja með enda ekki ætlunin að gera róttækar breytingar. Það er ekki ætlunin að taka út sundbolalotuna og ekki verður hætt við íþróttalotuna. Hinsvegar verða bara teknir fram- og aftursnúningar á næsta móti í stað fjórðungssnúninga. Dómforsendur eru nú þegar hinar sömu þannig að ekkert þarf þar að breytast. Ennfremur mun keppnisgreinin heita módelfitness hér heima eins og verið hefur.
 
Bætt við keppnisflokkum í Classic Bodybuilding
Hér á landi er fitness karla það sem kallast Classic Bodybuilding á ensku en fitness kvenna það sem kallast bodyfitness á ensku. Á erlendum stórmótum er keppt í nokkrum hæðarflokkum karla þar sem keppnisflokkar eru fjölmennir. Ákveðið var á ársþinginu að keppnisflokkar í CBB karla yrðu eftirfarandi:
Að 168 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 0 kg
Að 171 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 2 kg
Að 175 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 4 kg
Að 180 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 6 kg
Yfir  180 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 8 kg
– Hæð yfir 190 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 9 kg
– Hæð yfir 198 sm: hámarksþyngd [kg] = (Hæð  [sm] – 100) + 10 kg
Þetta eru þeir keppnisflokkar sem miðað verður við á erlendum mótum. Hérlendis munum við hinsvegar halda áfram að keppa í einum flokki, en miðað verður við ofangreindar þyngdartakmarkanir.
 
T-ganga í fitness kvenna
Ákveðið var að hér eftir yrði tekin upp svonefnd T-ganga keppenda sem komast í úrslit. Einn keppandi gengur inn á sviðið í einu.  Fyrst inn að miðju, síðan að hægri enda sviðsins og síðan vinstri enda, aftur inn að miðju og loks í röð innst á sviðinu.  Gönguleiðin myndar T á sviðinu. Á meðan göngunni stendur meta dómarar glæsileika göngunnar, stíl, persónuleika, útgeislun, öryggi o.s.frv. Þegar allir keppendur hafa lokið T-göngunni koma allir inn á sviðið í hefðbundinn samanburð. Þessi regla verður tekin upp hér á landi.
 
Sundbolalotan felld niður
Nú þegar hefur tekið gildi sú regla að hætt er að keppa í sundbol í fitness kvenna. Í rökstuðningi fyrir þessari breytingu segir að almennt hafi verið lítill munur á dómum í fyrstu og annarri lotu. (Svart bikini – Sundbolur) Ennfremur hafi sundbolalotan lengt keppnina og sundbolirnir séu dýrir. Þessi regla mun strax taka gildi hér á landi í fitness kvenna.
 
Bannað að nota húðlit sem hægt er að þurrka af
Hin ýmsu húðlitakrem sem kallast „Removable tan“ eru bönnuð. Undanfarið hefur framfylgni bannsins farið þannig fram á stórmótum að eftirlitsmaður hefur farið baksviðs og prófað að þurrka lit af keppendum. Ef liturinn fer af fær keppandinn ekki að fara inn á sviðið.  Skemmst er að minnast þess að keppanda var vísað af sviðinu á síðasta Norðurlandamóti þar sem liturinn var farinn að leka. Honum var vísað umsvifalaust úr keppninni. 
 
Allar skógerðir leyfilegar í fitness kvenna
Nú er leyfilegt að nota allar skógerðir í fitness kvenna. Bæði má nota opna og lokaða skó. Reglur um hæð breytast hinsvegar ekki.
 
Almenn viðmiðun í lengd keppnisbanns
Alþjóðasambandið tilkynnti á ársþinginu í nóvember að miða skuli við tveggja ára keppnisbann ef keppandi keppir hjá öðru keppnissambandi en IFBB. Fram til þessa hefur verið miðað við eitt til fjögur ár eftir eðli brots á reglum sambandsins, en hér eftir verður miðað við tveggja ára bann.

Ef keppendur eru í vafa hvort þeir hafi brotið þessa reglu er ráðlegast að kynna sér málið með góðum fyrirvara fyrir mót. Á síðasta heimsmeistaramóti sem haldið var í Tyrklandi var keppanda í vaxtarrækt karla vísað af sviðinu og úr keppni þegar dómari bar kennsl á hann. Skömmu áður hafði hann nefnilega keppt hjá öðru sambandi í bretlandi.

Frétt IFBB um ráðstefnuna og myndir. 

Einar Guðmann
Exit mobile version