Site icon Fitness.is

Verkjalyf, verkir og vöxtur

madur_sixpack_peysaEftir hrikalega æfingu í ræktinni kann að virðast freistandi að taka bólgueyðandi töflu til að draga úr eymslunum í vöðvunum. Það þekkist því að menn taki ibúprófen og acetamínófen til að draga úr verkjum. Engir verkir, enginn vöxtur, sagði einhver eða „no pain, no gain“ eins og segir á enskunni. Þetta virðist því miður vera óhjákvæmilegt því það er ekki sérlega gáfulegt að nota þessi lyf. Samkvæmt rannsókn sem Todd Trapp og Eileen Weinheimer við Ball State Háskólann í Muncie í Indiana unnu að er ljóst að þessi lyf draga úr nýmyndun prótína í kjölfar æfinga. Lyfin stöðva framleiðslu líkamans á cyclooxygenasa (COX) sem þjónar því hlutverki að örva myndun bólgumyndandi efna sem nefnast prostaglandín. Bólgum fylgja verkir en það er eðlilegt að líkaminn bregðist þannig við frumuskemmdum og ertingu í vöðvum.

Ef tekin eru bólgueyðandi lyf er komið í veg fyrir bólgurnar en um leið komið í veg fyrir vöðvavöxt.

Því miður virðast bólgur í vöðvum nauðsynlegar til þess að vöxtur eigi sér stað. Ef tekin eru bólgueyðandi lyf er komið í veg fyrir þær og um leið komið í veg fyrir vöðvavöxt. Engir verkir, enginn vöxtur á því vel við í þessu tilfelli.  Ef þú finnur fyrir hóflegum verkjum eftir átök í ræktinni skaltu bara bíta á jaxlinn og hugsa til þess að þetta eru vonandi vaxtarverkir.
(American Journal of Physiology Regulartory, Integrative and Comparative Physiology,
292: R2241-R2248, 2007)

Exit mobile version