
Notkun verkjalyfja hefur stóraukist á undanförnum árum bæði hér á landi sem erlendis. Því miður færist í vöxt að íþróttamenn og líkamsræktarfólk taki bólgueyðandi lyf eins og Ibuprofen til þess að draga úr eymslum í vöðvum og liðamótum. Risastórar rannsóknir á meira en 350.000 manns hafa sýnt fram á að dagleg notkun bólgueyðandi verkjalyfja eykur hættuna á hjartaáfalli um 33%. Ef verkjalyf eru notuð að staðaldri hætta þau að virka á langvarandi (króníska) verki en auka hættuna á kransæðasjúkdómum. Ef verkjalyf eru notuð sjaldan virka þau vel á verki eða sársauka sem gerir stöku sinnum vart við sig og ólíklegt er að slík notkun hafi slæm áhrif á hjartað.
(The New York Times, 18. júní 2013)