Magnús Samúelsson sigraði sinn flokk og heildarkeppnina í gær á alþjóðlega vaxtarræktarmótinu International Austrian Championships sem fór fram í gær í Austurríki. Kristín Kristjánsdóttir sigraði sömuleiðis í flokki 35 ára og eldri í fitness. Með þessum sigri Magnúsar er brotið blað í sögu vaxtarræktar á Íslandi þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur sigrar heildarkeppni á jafn sterku alþjóðlegu móti í vaxtarrækt. Magnús keppti fyrst í undir 90 kg flokki sem í voru 12 keppendur frá hinum ýmsu löndum og sigraði þar eftir harða keppni við marga sterka keppendur.
Sigurinn í undir 90 kg flokknum kom Magnúsi verulega á óvart þrátt fyrir að hann sé í sínu besta formi. Keppendurnir sem hann atti kappi við voru augljóslega úr röðum þeirra sterkustu sem hafa verið að gera það gott á alþjóðlegum mótum undanfarið. Hann gerði sér engar vonir um að sigra í heildarkeppninni og áttaði sig greinilega ekki á eigin getu.
„Svona langar mig að verða“ sagði Magnús þegar hann horfði á sex efstu í yfir 100 kg flokknum. Korteri síðar hafði hann sigrað þá í heildarkeppninni.
Fyrir okkur heima er erfitt að gera sér grein fyrir því hversu merkilegur sigur þetta er án þess að skoða hann í sögulegu samhengi. Frá upphafi hafa íslenskir keppendur þótt standa sig vel fyrir það að komast yfir höfuð í úrslit efstu keppenda á mótum sem haldin eru á norðurlöndunum. Þetta austurríska mót sem haldið er í heimalandi Arnold Schwarzenegger laðar til sín marga af sterkustu keppendum Evrópu og það að sigra mótið þýðir að Magnús er kominn á kortið í alþjóðlegri vaxtarrækt.
Kristín Kristjánsdóttir keppti sömuleiðis á mótinu í fitnessflokki 35 ára og eldri og sigraði sinn flokk. Kristín keppti á þessu móti á síðasta ári og sigraði þá í heildarkeppni allra flokka í fitness sællar minningar. Einhverra hluta vegna var ekki haldin heildarkeppni í fitnessflokkunum að þessu sinni en það kom Kristínu ekki jafn mikið á óvart og Magnúsi að sigra. Kristín sem er tvímælalaust einn af okkar bestu fitnesskeppendum og er einfaldlega komin með þá stöðu í alþjóðlegum keppnum að vera álitin ein af bestu keppendunum á heimslistanum í sínum keppnisflokki. Hún keppir um næstu helgi á Spáni á Evrópumótinu í fitness þar sem hún mun keppa í flokki 45 ára og eldri, en það er í fyrsta skipti sem keppt verður í þeim aldursflokki.