Site icon Fitness.is

Sjálfur og sjálfumgleði

SelfiekonaSjálfur (selfies) eru að tröllríða öllu. Með tilkomu handhægra síma er varla sá viðburður haldinn þar sem fólk keppist ekki við að taka sjálfur og deila þeim á samskiptamiðlum. Sjálfur eru áberandi einkenni sjálfsdýrkunar að mati sumra sálfræðinga og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að halda því fram að þeir sem noti sjálfsmyndastangir séu geðvilltir sjálfsdýrkendur með machíavellískar tilhneygingar. Ítalinn Niccolo Machiavelli (1460-1527) er einna frægastur fyrir rit sitt Furstann sem má kalla nokkurs konar handbók fyrir þá sem vilja komast eins langt og hægt er, hvað sem það kostar. Einskonar siðblinda sem kemur fram í mikilli þörf á sjálfsdýrkun, sérstaklega þegar myndum er póstað á samskiptamiðlana. Að áliti sumra sálfræðinga eru virkustu notendur sjálfsmyndastanga frekar óöruggir með sig og í prófunum reynast þeir hafa laka tilfinningu fyrir samkennd og því að tilheyra samfélaginu – eru í einskonar tilvistarkreppu. Þetta eru þeir sem verða fúlir þegar þeir fá ekki nógu mörg „like“ á það sem þeir setja á Facebook.
Þessari dökku lýsingu á sjálfsmyndastangareigendum til bóta má bæta við að enn aðrir sálfræðingar hafa bent á að sjálfur séu einfaldlega ný leið til tjáningar og samskipta. Það var nokkuð fyrirsjáanlegt að með tilkomu sjálfsdýrkandi sjálfumyndara væri kominn frjósamur farvegur fyrir sálfræðilegar flækjur og vangaveltur innan sálfræðinnar.
(The New York Times, 8. ágúst 2015)

Exit mobile version