Hefð fyrir sána hér á landi tengist helst sundlaugum og sólstofum. Í nágrannalöndum okkar, sérstaklega Finnlandi er sterk hefð fyrir sánaklefum á heimilum. Finnar hafa lengi haldið því fram að sána sé grundvöllur góðrar heilsu en almennt hafa vísindamenn ekki kvittað undir að áhrif sána á heilbrigði séu marktæk þrátt fyrir að nokkuð augljóst sé að sána hefur slakandi áhrif. Of mikill hiti í sánaklefa getur verið varasamur fyrir suma og því er ljóst að meðalhóf í hita er best.
Höfundar rannsóknarinnar lögðu fram þá kenningu að sánaböð gætu gagnast fólki sem einhverra hluta vegna má ekki stunda erfiðar æfingar heilsunnar vegna.
Japönsk rannsókn hefur nýverið varpað nýju ljósi á áhrif sánabaða. Vísindamenn við háskólann í Kogoshima könnuðu áhrif sánabaða á 25 karlmenn sem höfðu allir minnst einn áhættuþátt gagnvart hjartasjúkdómum. Þeir voru settir í þurrt sána við 60 gráðu hita í 15 mínútur og eftir það í 30 mínútur upp í rúm, undir teppi í slökun. Þetta gerðu þeir einu sinni á dag í tvær vikur.
Skemmst er frá að segja að þessi meðferð bætti blóðflæði um kransæðarnar í hjartanu. Einnig lækkaði blóðþrýstingur svolítið.
Meðferðin er talin hafa skilað jákvæðum áhrifum á innsta hluta æðaveggjana. Frumur í æðaveggjunum framleiða köfnunarefnisoxíð (nitric oxide) sem gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnun blóðflæðis undir álagi – hvort sem það er álag vegna líkamlegra átaka eða streytu.
Höfundar rannsóknarinnar lögðu fram þá kenningu að sánaböð gætu gagnast fólki sem einhverra hluta vegna má ekki stunda erfiðar æfingar heilsunnar vegna. Þjálfun getur reynst sumum hættuleg og þar kann sána að gagnast í slíkum tilfellum.
(J Am Coll Cardiology 38: 1083-1088)