Site icon Fitness.is

Risvandamál er sterkasta vísbendingin um yfirvofandi hjartaáfall

Risvandamál hafa meira forspárgildi um yfirvofandi hjartaáfall en háþrýstingur, reykingar, sykursýki, blóðfita og offita.

Það kann að vera vísbending um lífshættulegan sjúkdóm ef limurinn er til vandræða í kynlífinu. Þetta er niðurstaða fjölmargra lýðheilsurannsókna. Ein þeirra var tímamótarannsókn á 9.400 karlmönnum sem birt var í hinu virta riti Journal of the American Medical Association. Risvandamál eru samkvæmt henni áreiðanlegasta einkennið sem bendir til að hjartasjúkdómar eða hjartaáfall séu í vændum.

Vísindamenn í San Antonio sem starfa við Miðstöð Heilbrigðisvísinda við Háskólann í Texas undir stjórn Ian Thompson komust að því að karlmenn með risvandamál voru í mun meiri hættu gagnvart hjarta- og kransæðasjúkdómum en karlar sem voru ekki í vandræðum með liminn.

Karlar með risvandamál eru 80% líklegri en aðrir til að þróa með sér hjartasjúkdóma og þeir sem eru á aldrinum 40-50 ára eru í tvöfallt meiri hættu gagnvart hjartasjúkdómum í samanburði við karla sem eru ekki með risvandamál.

Kynlífstengd vandamál byrja snemma. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Emory Háskólann kom í ljós að hreyfing og líkamsrækt var nauðsynleg forsenda þess að kynlífið væri upp á sitt besta hjá karlmönnum á aldrinum 18-40 ára.

Karlar sem hreyfa sig mikið lenda síður í risvandamálum og eru almennt ánægðari með sitt kynlíf en kyrrsetukarlar.

Ekki bíða of lengi. Hreyfðu þig mikið á yngri árum og njóttu kynlífsins. Komi upp risvandamál til lengri tíma skaltu heimsækja lækni. Hjarta- og æðasjúkdómar eru stærsti orsakavaldur örorku og dauðsfalla í heiminum.
(Journal of Sexual Medicine, 9:524-530; ScienceDaily, vefútgáfa)

Exit mobile version