Site icon Fitness.is

Öll Íslandsmetin féllu á Þrekmeistaranum

160 keppendur frá 19 æfingastöðvum í 16 bæjarfélögum kepptu á þrekmeistaramóti í Íþróttahöllinni í gær. Pálmar Hreinsson frá Reykjavík og Harpa Hlín Jónsdóttir frá Ólafsfirði sigruðu í opnum flokki á nýjum Íslandsmetum. Pálmar fór brautina á tímanum 15:49:81 og Harpa á tímanum 18:41:47. Pálmar bætti Íslandsmetið sem hann átti um rúmlega mínútu og Harpa bætti Íslandsmetið sem hún sömuleiðis átti um 45 sek. Í flokkum eldri en 39 ára sigruðu þau Þorsteinn Hjaltason frá Akureyri á tímanum 17:17:00 og Guðrún Ragnarsdóttir frá Vestmannaeyjum á tímanum 19:13:19 sem bæði eru Íslandsmet. Í liðakeppni voru Íslandsmetin líka slegin en þar sigruðu Rauðu djöflarnir 1 frá Vestmannaeyjum á tímanum 15:10:28 og Bláa lið Nöldurs og naggs frá Akureyri í karlaflokki á tímanum 13:07:83. Keppt var í liðakeppni kvenna eldri en 39 ára og þar sigruðu Dívurnar frá Ólafsfirði á 17:26:60 sem er bæting á eldra Íslandsmeti um rúma hálfa mínútu.Tvennt stendur uppúr þegar horft er um öxl á keppnina. Í fyrsta lagi sú staðreynd að fjöldi keppenda gerði það að verkum að keppnin varð yfir fimm klukkustunda löng. Sýnir það svo ekki sé um villst að fyrir næstu keppni þarf að endurskoða framkvæmdina með það að markmiði að skipta henni upp. Það er óhjákvæmilegt þar sem keppnin hefur stækkað í sniðum ár frá ári. Hugsanlegt er að næstu keppni verði skipt upp í einstaklingskeppni og liðakeppni þar sem einstaklingskeppnin færi fram snemma dags og liðakeppnin færi fram eftir gott hlé seinnipart dags. Einnig kemur til greina að skipta henni upp á tvo daga.
Hitt atriðið sem stendur uppúr er hversu jafnir efstu keppendur voru. Í kvennaflokki munaði ekki nema þremur sekúndum á fyrstu þremur sætunum. Úrslit annars og þriðja sætisins réðust á sekúndubrotum. Sama sagan gerðist í karlaflokki. Einungis tvær sekúndur skildu að fyrstu tvö sætin. Þessi þróun er eflaust eðlileg þegar svona íþróttagrein er annars vegar en miklu skiptir greinilega að keppendur sem eru álíka fljótir séu ræstir samhliða í brautinni til þess að auka á keppnina á milli þeirra. Gríðarleg spenna myndaðist því hjá efstu keppendum sem þannig fá hvatningu af hver öðrum. Næsta Þrekmeistaramót verður haldið í haust. Líklegast í lok október eða byrjun nóvember.
Hér er að finna PDF skjal með úrslitum Þrekmeistarans og tímum stakra keppenda.

Exit mobile version