Site icon Fitness.is

Nýtt fitubrennslulyf

Líklega eru liðin um 50 ár síðan læknar byrjuðu að nota skjaldkirtilshormóna til þess að vinna gegn offitu. Það sem þessi hormón gera er að hraða efnaskiptum en gallinn er sá að þau geta örvað hjartað og þar af leiðandi blóðrásina of mikið sem aftur getur leitt til of mikils blóðþrýstings, örs hjartsláttar, óreglulegs hjartsláttar og hjartastopps. Talsverðir gallar það. Það sem skjaldkirtilshormónin gera er að stuðla að því að ákveðin tegund prótína í frumunum breyti orku í hita í stað þess að geyma hana sem fitu. Nú er verið að þróa nýtt lyf sem virkar á skjaldkirtilsviðtaka í frumunum og hefur því ekki í för með sér þau hjartavandamál eins og eldri lyf. Búið er að sækja um leyfi hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna til þess að hefja rannsóknir á fólki sem notar þetta lyf en eins og staðan er í dag er það einungis efedrín í bland við koffín sem er hitamyndandi eins og tilgangur þessa lyfs á að vera, en eins og menn vita eru bætiefnablöndur með efedríni ekki til sölu hér á landi og umdeildar erlendis þrátt fyrir miklar vinsældir. Talið er að 2,5 milljónir bandaríkjamanna noti bætiefni með efedríni reglulega. Kosturinn sem þetta nýja lyf gæti haft fram yfir önnur efni eða lyf er sá að vonast er til þess að það örvi efnaskiptin strax án þess að hafa áhrif á hjarta og æðakerfið. Menn geta hinsvegar andað rólega því það kemur ekki á markaðinn fyrr en eftir nokkur ár ef svo fer að leyfi fæst fyrir því.
(The Tan Sheet, 31 ágúst, 2001)

Exit mobile version