Site icon Fitness.is

Nýr skilningur vísindamanna á áhrifum fitu á bólgur og sjúkdóma

Þar til nýlega töldu vísindamenn að aukafita gegndi því hlutverki að vera fyrst og fremst einskonar varaforði. Með nýjum og breyttum skilningi á hlutverki fitunnar virðist hún mun hættulegri en áður var talið – sérstaklega mikil kviðfita. Bylting í lífefnafræði hefur breytt sýn vísindamanna á hlutverk fitunnar vegna þess að nú er vitað að hún gegnir stóru hlutverki í myndun ákveðinna hormóna. Hormóna sem gegna hlutverki í boðskiptum. Fitan miðlar þannig upplýsingum til heilans í þeim tilgangi að stjórna matarlyst og efnaskiptahraða.

Vísindamenn við Washington-Læknaháskólann í St. Louis komust að því að kviðfitufrumur seyta frá sér bólgumyndandi prótínum sem hafa skaðleg áhrif á æðar og ýmsar frumur í líkamanum. Talið er að þessi áhrif eigi ríkan þátt í myndun kransæða- og efnaskiptasjúkdóma vegna áhrifa á blóðþrýsting, hækkun blóðfitu, kviðfitusöfnun, insúlínviðnám, bólgur og óeðlilega kekkjamyndun í blóði.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru enn um 50% af aldursstöðluðum dánarorsökum á Vesturlöndum þrátt fyrir framfarir í meðferðum og aukinn skilning á áhættuþáttum. Nýverið hafa vísindamenn áttað sig á að bólgur og hrakandi efnaskiptaheilsa leika stórt hlutverk.

Stærstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru erfðir, hreyfingaleysi og ofát. Með nýjum skilningi á áhrifum fituforða á bólgumyndun kann að hafa opnast víðtækari þekking á eðli þessara hættulegu sjúkdóma. Í ljósi þess að hjarta- og æðasjúkdómar eru í þessum skilningi einskonar bólgusjúkdómar kann að hafa opnast farvegur fyrir aðra nálgun við þessa bölvalda. Um leið ætti að aukast skilningur á mikilvægi þess að leita allra leiða til að sporna við þeim lífsstíl sem leiðir til offitu.

Exit mobile version