Site icon Fitness.is

Nafnabreytingar á fitnessflokkum

Ekki hefur verið fullkomin sátt um heiti á flokkum í fitness karla á engilsaxneskunni. Fram til þessa hafa fitnessflokkar karla verið kallaðir Men´s fitness og Men´s bodyfitness.Á hinu árlega þingi IFBB sem haldið var í Kína í nóvember var samþykkt að Men´s bodyfitness myndi kallast Classic bodybuilding á ensku. Á íslenskunni myndi það verða að kallast klassísk vaxtarrækt sem í fyrstu hljómar ekki sérlega lipurt en hver veit nema það venjist. Á sínum tíma þegar byrjað var að þýða bodybuilding sem vaxtarrækt þótti fáum það jafn gott orð og bodybuilding. Í dag er þetta orðinn hluti af íslensku máli. Ekki hefur verið ákveðið hvað kalla skuli þessa flokka á íslenskunni, en hægt er að senda inn tillögur á vefnum fitness.is. Fjölmiðlar hér á landi hafa verið sérlundaðir og tregir til að nota orðið fitness. Morgunblaðið og Ríkissjónvarpið hafa einsett sér að kalla þessa keppni hreysti. Þar á bæ er mönnum annt um íslenskuna skiljanlega, en auðvitað verður að kallast merkilegt að sjónvarpsstöð skuli taka upp á sína arma að kalla íþróttagrein nafni eftir eigin höfði. Hvergi í heiminum hefur verið reynt að nota annað orð en fitness yfir þessa keppnisgrein óháð því hvort um keppni í Asíu eða á Norðurlöndunum er að ræða. Tennis, karate, júdó, Tae Kwon Do eða badminton eru allt heiti sem hafa fengið að vera í friði fyrir íslenskuáráttu þeirra á mbl.is eða Rúv. Hvort endingin verði sú að farið verði að kalla formfitness karla klassíska vaxtarrækt skal ósagt látið að sinni, en lesendur eru hvattir til að kíkja inn á fitness.is og senda inn tillögur.

Exit mobile version