Site icon Fitness.is

Lyfleysa virkar líka

Gjarnan er það svo þegar við hér á FF erum að skrifa um allskonar rannsóknir sem gerðar hafa verið að þegar sagt er frá niðurstöðunum er árangurinn gjarnan borinn saman við lyfleysu.

Þegar talað er um lyfleysu er átt við gervi-töflur eða efni sem inniheldur ekki það sem verið er að rannsaka. Oftast veit sem sá sem tekur þátt í rannsókninni ekki hvort hann sé að taka inn efnið sem verið er að rannsaka eða hvort hann fær lyfleysu. Talað er um að rannsókn sé tvíblind þegar hvorki sá sem verið er að rannsaka né sjálfur vísindamaðurinn veit hver fær lyfleysu og hver fær það sem verið er að rannsaka. Slíkar rannsóknir eru oft mjög athyglisverðar þar sem lítil hætta er á að niðurstöðurnar séu mengaðar af skoðun eða væntingum vísindamannsins.
Lyfleysur virka hinsvegar oft. Byggist þá virknin á væntingum þess sem verið er að rannsaka. Þátttakandinn vill að efnið virki og því virkar það. Gjarnan er það þó svo að lyfleysuáhrifin er minni en þau áhrif sem efnið hefur sem er til rannsóknar. Ef efnið raunverulega virkar, er yfirleitt töluverður munur á því og lyfleysunni.
 
Ágætt dæmi um lyfleysuáhrifin (placebo effect) er rannsókn Michael Duncan og félaga í Bretlandi. Þeir rannsökuðu frammistöðu íþróttamanna í fótabekk fyrir framan og það hversu erfitt þeim þótti að gera æfinguna. Rannsóknin byggðist á því að láta íþróttamennina gera æfinguna þrisvar með góðu millibili en var sagt að áður fengju þeir koffíntöflur, lyfleysu eða ekkert. Raunin var sú að þeir fengu alltaf lyfleysu án þess að vita það. Þegar þeir héldu hinsvegar að þeir væru að fá koffíntöflurnar gátu þeir lyft tveimur endurtekningum meira en annars og þeim fannst lyfturnar léttari.
 
Þetta kennir okkur ekki bara að gæta vísindalegra vinnubragða áður en við fullyrðum eitthvað um virkni nýrra bætiefna eða hvað það nú er sem við rannsökum. Þetta segir okkur fyrst og fremst að oft er það einungis okkar eigin hugsun og hugarfar sem kemur í veg fyrir að við náum þeim markmiðum sem við viljum ná.
 
(International Journal of Sports Physiology and Performance, 4, 244-253, 2009)
Exit mobile version