Site icon Fitness.is

Lyf eru eina raunhæfa lausnin á þunglyndi fyrir marga

Íslendingar eiga met í notkun þunglyndislyfja vegna greiðsluþáttöku sjúkratrygginga á lyfjakostnaði en ekki sálfræðiþjónustu.

Notkun þunglyndislyfja hefur aukist um 40% á Íslandi á einungis 10 árum. Við notum mest allra OECD þjóða af þunglyndislyfjum og mun algengara er að börn fái þessi lyf en gengur og gerist á norðurlöndunum.

Færa má rök fyrir því að í mörgum tilfellum væri heppilegra að beita öðrum meðferðarúrræðum en lyfjagjöf og staðreyndin er sú að þunglyndi er ekki algengara hér en í nágrannalöndunum.

Hér greiða sjúkratryggingar niður lyfjakostnað en ekki sálfræðiþjónustu. Ónotaleg staðreynd sem eflaust varpar ljósi á það hvers vegna lyfjanotkun er meiri hér en í samanburðarlöndum. Ekki er ólíklegt að sama ástæða skýri önnur met sem landsmenn eiga í lyfjanotkun.

Einn klukkutími hjá sálfræðingi getur kostað á bilinu 15.000-17.000. Það er ekki á færi allra að standa straum af slíkum kostnaði og því eru niðurgreiddu lyfin eini valkosturinn fyrir marga.

Dugnaður landsmanna brotlendir á vegg þegar hann hittir fyrir streitu og vanrækslu á því sem skiptir máli – heilsunni. Við hreyfum okkur ekki nægilega mikið, stundum ofát og ofneyslu á flestum sviðum og fitnum úr hófi. Fyrir marga eru þunglyndislyf eina hjálpin í boði og svo sannarlega hjálpa þau mörgum.

Í verstu tilfellum geta þunglyndislyf valdið fleiri vandamálum en þau laga. Rúmur þriðjungur þeirra sem nota þunglyndislyf upplifa ýmis vandamál með skapgerðarbreytingar, kynlífslöngun, félagsfælni og ýmis vandamál sem draga úr lífsgæðum.

Vandamál í kynlífinu eru verst hjá þeim sem eru yfir fimmtugt og nota þunglyndislyf, sérstaklega reykingafólki. Almennt er fólk ekki fúst til að ræða kynlíf við lækninn sinn og þar af leiðandi er þetta hulið vandamál – sem margir hafa ekki heldur efni á að ræða við sálfræðing.

(J Clin Psych, 63:357-366 og lyfjastofnun.is – Notkun þunglyndislyfja á íslandi 14.11.2017)

Exit mobile version