Site icon Fitness.is

Kristín H. Kristjánsdóttir íþróttamaður ársins hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna

Í dag fór fram kjör á íþróttamanni ársins hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna, en það var Kristín H. Kristjánsdóttir sem hlaut titilinn. Kristín sem keppir í fitness, náði frábærum árangri á árinu bæði innan lands sem utan. Skemmst er að minnast þess að hún varð Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna í fitness og flokki 35 ára og eldri. Ennfremur náði Kristín besta árangri sem náðst hefur á alþjóðlegu móti í fitness þegar hún hafnaði í 8 sæti á bæði Evrópu- og heimsmeistaramóti Alþjóðasambandsins í flokki kvenna eldri en 35 ára.Íslandsmeistari í undir 164 sm flokki á Íslandsmóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. – Íslandsmeistari í flokki 35 ára og eldri á Íslandsmóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. – Íslandsmeistari í allra flokka í fitness á Íslandsmóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. – Bikarmeistari í flokki yfir 164 sm í fitness á Bikarmeistaramóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. – 8. sæti í fitness á opnu alþjóðlegu móti: Oslo Grand Prix í Noregi. – 8. sæti í flokki 35 ára og eldri á Evrópumóti unglinga og öldunga hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna sem haldið var í Tyumen í Síberíu. – 8. sæti í flokki 35 ára og eldri á Heimsmeistaramóti unglinga og öldunga hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna sem haldið var í Búdapest í Ungverjalandi.
Fimm efstu sætin: 1. Kristín H. Kristjánsdóttir, keppnisgrein: fitness, 19 stig. 2. Sigurður Gestsson, keppnisgrein: vaxtarrækt, 30 stig. 3. Magnús Bess Júlíusson, keppnisgrein vaxtarrækt, 36 stig. 4. Kristjana Hildur Gunnarsdóttir, keppnisgrein: Þrekmeistarinn, 39 stig. 5. Hrönn Sigurðardóttir, keppnisgrein: vaxtarrækt, 49 stig.
Það er vel við hæfi í ljósi fjölda keppenda í hinum ýmsu keppnisgreinum sem tengjast líkamsrækt að valinn sé úr hópi þeirra íþróttamaður ársins. Þeir sem eiga möguleika á tilnefningu eru keppendur í fitness, vaxtarrækt, módelfitness og Þrekmeistaranum. Mikill vöxtur er í öllum þessum greinum líkamsræktar og fjöldi keppenda fer stigvaxandi. Á síðastliðnu ári kepptu á þriðja hundrað keppendur á mótum sem tengjast líkamsrækt og þykir því full ástæða til þess að velja íþróttamann ársins sérstaklega úr röðum þeirra. Það er Alþjóðasamband líkamsræktarmanna sem stendur fyrir kjörinu en það var stofnað árið 1946 af bræðrunum Joe Weider og Ben Weider. Á enskunni heitir það International Federation of Bodybuilding and fitness, skammstafað IFBB. Í dag eru 177 lönd aðilar að Alþjóðasambandinu og hér á Íslandi var byrjað að keppa á vegum þess með fyrsta Íslandsmótinu í vaxtarrækt sem haldið var 1982. Síðan þá hafa verið haldin Íslandsmót á hverju ári og árið 1994 var fyrsta fitnesskeppnin haldin hér á landi. Tveimur árum síðar – 1996 – var byrjað að keppa í fitness á alþjóðavettvangi en í dag er sú keppnisgrein í hröðum vexti eins og sjá má á þátttökufjölda á mótum undanfarin ár bæði innan lands sem utan. Í dag eru haldin yfir 1000 mót víðsvegar um heiminn á vegum Alþjóðasambandsins sem er í dag talið vera þriðja stærsta íþróttasamband í heiminum. Algengt er að keppendafjöldi sé á bilinu 200 300 á Evrópu- og heimsmeistaramótum og raunin er sú að meira eða minna allir atvinnumenn í fitness og vaxtarrækt í heiminum í dag eiga rætur í IFBB, Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna. Eitt helsta markmið þessa rótgróna félags er að kynna líkamsrækt sem heilbrigðan lífsstíl án tóbaks, lyfja og áfengis. Eitt af markmiðum Alþjóðasambandsins er ennfremur að kynna líkamsrækt sem æskilega leið til þess að viðhalda lífsgæðum og góðri heilsu fram eftir öllum aldri. Hér á landi eru það þeir Einar Guðman og Sigurður Gestsson sem eru forsvarsmenn Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. Árið 2000 hófu þeir einnig að halda Þrekmeistarakeppnir samhliða fitness- og vaxtarræktarkeppnum. Eins og áhugafólk um líkamsrækt veit, er Þrekmeistarinn orðin gífurlega vinsæl keppnisgrein í dag, gjarnan með á vel á annað hundrað keppendur. Þrekmeistarinn er frábrugðinn hefðbundnum keppnisgreinum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna að því leyti að keppt er í kappi við klukkuna í gegnum 10 æfingar og keppendur eru ekki bornir saman á sviði eins og í fitness og vaxtarrækt. Þessi unga og skemmtilega keppnisgrein sem Þrekmeistarinn er hefur átt góða samleið með fitness- og vaxtarræktarmótum. Það er því ekki úr vegi að í vali á íþróttamanni ársins hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna séu keppendur á Þrekmeistaranum gjaldgengir. Í dag er staðan sú að Rafael Santonja forseti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna hefur farið fram á það við Einar Guðmann að kynna Þrekmeistarann sem keppnisgrein fyrir öðrum aðildarþjóðum á ráðstefnu Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. Það er því vel við hæfi að í vali á íþróttamanni ársins hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna standi valið um keppendur í fitness, vaxtarrækt og Þrekmeistaranum. 12 keppendur eru tilnefndir og koma margir til greina úr stórum hópi íþróttamanna.

Exit mobile version