Site icon Fitness.is

Karlar eru tregir til að leita læknis

Sem fyrr er það betri helmingurinn – makinn – sem í flestum tilfellum á stóran þátt í að karlar leita til læknis.

Meðalævi íslenskra karlmanna hefur farið hækkandi og er nú nærri 81 ár og kvenna 84 ár. Konur lifa því lengur en karlar að meðaltali en það á ekki einungis við um Ísland.Talið er að tregða karlmanna til að leita til læknis sé einn af þeim áhrifaþáttum sem gera það að verkum að karlar lifa skemur en konur.

Karlar fara sjaldnar til læknis en konur og fyrir vikið er líklegra að þeir fái síður upplýsingar um forvarnir sem gætu dregið úr líkunum á hjartaslagi, heilablóðfalli, krabbameini, háþrýstingi og sykursýki.

Könnun sem gerð var meðal karlmanna af American Academy of Family Physicians sýndi fram á að 92% karlmanna draga í nokkra daga að leita læknis eftir að hafa orðið veikir til þess að meta hvort þeir muni læknast af sjálfsdáðum eða ekki. 30% sagðist einfaldlega ekki vilja leita til læknis fyrr en dauðinn blasti við. Um 80% karlmanna töldu heilsu sína góða og jafnvel frábæra og töldu enga ástæðu til að leita læknis. Þeir eyddu hinsvegar að meðaltali 18 klukkutímum fyrir framan sjónvarpið á viku og minna en fimm klukkutímum í æfingar eða hreyfingu.

Sem fyrr er það betri helmingurinn – makinn – sem í flestum tilfellum á stóran þátt í að karlar leita til læknis. Þegar þangað var komið fóru 80% karlana eftir ráðleggingum læknisins. Heimsókn til læknis bjargar ekki bara lífum þegar veikindi koma upp, heldur gegna læknar mikilvægu hlutverki í upplýsingamiðlun um háþrýsting, blóðsykur og fyrirbyggjandi lífsstíl sem þegar fram líða stundir lengir ævina.

(WebMD)

Exit mobile version