Site icon Fitness.is

Í fyrsta skipti sem engin Íslandsmet falla á Þrekmeistaranum

Tíunda Íslandsmeistaramót Þrekmeistarans var haldið um helgina í íþróttahöllinni á Akureyri þar sem um 140 keppendur mættu til leiks. Þetta var jafnframt sautjánda Þrekmeistaramótið frá upphafi.

Í fyrsta skipti í sögu Þrekmeistarans féll ekkert Íslandsmet þrátt fyrir að margir hafi verið nálægt sínu besta. Það skorti þó ekki þrekmeistarana þar sem flestir sterkustu keppendur landsins voru mættir til keppni. Fremst þar í flokki fóru þau Kristjana Hildur Gunnarsdóttir og Aðalsteinn Sigurkarlsson sem sigruðu í opnum flokki. Kristjana var um hálfri mínútu frá því að bæta eigið Íslandsmet þegar hún fór á tímanum 16:13:28 og Aðalsteinn var sömuleiðis um 20 sekúndum frá að bæta eigið Íslandsmet þegar hann fór á tímanum 15:16:78.

Helena Ósk Jónsdóttir varð önnur í opnum flokki kvenna á eftir Kristjönu á tímanum 18:59:80 en þriðja varð Ragnheiður Sara Guðmundsdóttir á tímanum 19:48:67. Kristjana Hildur Gunnarsdóttir sigraði einnig í flokki 39 ára og eldri, en í þeim flokki varð Þuríður Þorkelsdóttir önnur á tímanum 20:05:00 og Fanney Úlfljótsdóttir þriðja á tímanum 26:16:77.

Í opnum flokki karla varð Guðlaugur Aðalsteinsson annar á eftir Aðalsteini Sigurkarlssyni á tímanum 17:25:66. Þriðji varð Finnur Dagsson sem keppti þarna á sínu fyrsta Þrekmeistaramóti en hann fór brautina á 18:18:00 sem er frábær tími miðað við fyrstu tilraun.

Í flokki karla 39 ára og eldri urðu þeir Guðlaugur og Finnur í fyrsta og öðru sæti en Orri Einarsson varð þriðji á tímanum 19:16:51.

Guðlaugur Aðalsteinsson kom einnig við sögu í tvenndarkeppninni. Þar sigraði hann og Hildur Andrésdóttir á tímanum 15:57:48. Birgitta og Unnsteinn urðu önnur á tímanum 16:16:59. Þriðju urðu Team Awesome sem samanstóð af þeim Þorbjörgu Sólbjartsdóttur og Bjarka Bjarnasyni sem fóru á 17:10:97.

Lætin byrjuðu fyrir alvöru þegar liðakeppnin fór af stað. Að venju hófst keppnin á liðakeppni kvenna. Þar byrjuðu og urðu fyrstar 5 fræknar frá Lífsstíl í Reykjanesbæ á tímanum 13:56:10 sem er um hálfri mínútu frá þeirra eigin Íslandsmeti.  Boot Camp Akureyri höfnuðu í öðru sæti á tímanum 15:03:15 og þriðja sæti féll í hlut Dirty Nine frá Lífsstíl í Reykjanesbæ sem fóru á tímanum 15:23:52. Dirty Nine var hinsvegar með besta tímann í liðakeppni eldri en 39 ára. Herbadísirnar urðu í öðru sæti á tímanum 20:39:10 en einungis tvö kvennalið kepptu í flokki 39 ára og eldri að þessu sinni.

Stórir og stæltir liðsmenn Sensei fóru með verðskuldaðan sigur af hólmi í liðakeppni karla. Þeir fóru á tímanum 12:47:95 sem er innan við mínútu frá Íslandsmetinu sem er búið að standa síðan 2006.  Team Össur frá Heilsuakademíunni kom á eftir þeim með tímann 14:08:55 og Handsome Man´s Club frá Átaki líkamsrækt í Stykkishólmi örfáum sekúndum á eftir þeim á tímanum 14:11:73.

Í liðakeppni karla eldri en 39 ára fór Öldungaráðið frá Bjargi á Akureyri með sigur af hólmi á tímanum 14:36:12. Old Spice frá Heilsuakademíunni varð í öðru sæti á tímanum 15:40:79 en einungis tvö karlalið kepptu í flokki 39 ára og eldri að þessu sinni.

kv. Einar Guðmann

Exit mobile version