Site icon Fitness.is

Hvort er betra að byrja á þrekæfingum eða styrktaræfingum?

Flestir óska sér að búa yfir hóflegum vöðvamassa og lítilli fitu. Ef þetta er markmiðið þarf að hafa í huga að það nægir ekki að sinna einungis styrktarþjálfun eða einungis þrekþjálfun. Þetta þarf að fara saman. Þá kemur upp hin algenga spurning – hvort ætti að byrja á styrktaræfingum eða þrekæfingum?
Ef horft er til rannsókna er ýmislegt sem bendir til að svarið geti farið á báða vegu. Þegar skorinn vöðvamassi er markmiðið er ljóst að þrekæfingar eru bestar til að brenna fitu en styrktaræfingar bestar til að byggja upp vöðvamassa. Efnaskiptahraði líkamans eflist í báðum tilfellum.
Eftir æfingar kemur upp þreyta – hvort sem það eru þrekæfingar eða styrktaræfingar. Ef þrekæfingar eru teknar á undan styrktaræfingum dregur þreytan úr getunni þegar kemur að styrktaræfingunum – og öfugt.
Svarið liggur í markmiðinu. Efnaskiptahraðinn eykst mest þegar þrekæfingar eru teknar á undan styrktaræfingum samkvæmt rannsókn sem vísindamenn við Brigham Young Háskólann gerðu undir stjórn Micah Drummond. Gallinn við að taka þrekæfingarnar fyrst er að erfitt er að taka vel á í hnébeygju, framstigi og réttstöðulyftu þegar mesta orkan er farin í þrekæfingarnar og fæturnir eru linir eins og gúmmí.
Ef markmiðið er að skera niður fitu ættu þrekæfingar að hafa forgang. Ef markmiðið er að byggja upp vöðvamassa með lágmarks-fitu ættu styrktaræfingarnar að hafa forgang. Svarið liggur þannig í markmiðinu.
(NSCA Performance Training Journal, 6:6-7)

Exit mobile version