Site icon Fitness.is

Hvaða verkjalyf ert þú að taka?

Þú kannast kannski ekki við nafnið: acetaminophen. Ef þú lest hinsvegar aftan á pakkninguna á verkjalyfinu þínu er hugsanlegt að acetaminophen komi við sögu. Stundum er það skrifað APAP á listanum yfir virk efni (active ingredients).

Hið algenga verkjalyf Parasetamól sem selt er í öllum íslenskum apótekum inniheldur t.d. acetaminophen. Til erum um 200 mismunandi verkjalyf sem innihalda þetta efni sem Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjana varar við að sé tekið í of stórum skömmtum.

Nýlega mælti hópur vísindamanna með því við Matvæla- og lyfjaeftirlitið að þeir myndu minnka leyfilegan skammt acetaminophens í verkjalyfjum sem seld eru í apótekum.

Algengasta ástæða lyfrarbilunar er inntaka acetaminophens. Talið er að 100 dauðsföll verði ár hvert í Bandaríkjunum af völdum þessa efnis og að um 2000 manns þurfi meðferð á sjúkrahúsi eftir að hafa tekið verkjalyf sem innihéldu acetaminophen. Oftar en ekki er ástæða lifrarbilunar sú að fólk blandar saman fleiri en einu lyfi sem innihalda acetaminophen og fær því meira af þessu efni en það heldur.

Vísindamenn við háskólann í Norður Karolínu komust að því að meirihluti þeirra sjúklinga sem tók ráðlagðan hámarks-dagsskammt af acetaminophen (4 grömm á dag) fékk lifrareitrun. Ensímvirkni í lifrinni varð ennfremur þrefallt meiri en eðlilegt þykir hjá 40% sjúklingana.

Undanfarin ár hafa vísindamenn við Washington háskólann veitt því athygli að lifrarbilunartilfellum sem varða acetominophen hefur fjölgað á undanförnum árum. Þessi fjölgun er talin eiga sér hugsanlegar rætur í ótta fólks við að taka önnur bólgueyðandi verkjalyf á borð við Vioxx og Celebrex vegna gruns um að þau valdi heilsutjóni. Þeir benda líka á að fólk sem drekkur meira en þrjú glös af áfengi á dag sé í sérstökum áhættuhópi gagnvart því að verða fyrir lifrarbilun í kjölfar þess að taka verkjalyf sem innihalda acetaminophen, jafnvel þó magnið sé innan ráðlags hámarksskammts.

Gættu þess sérstaklega að taka ekki samtímis tvö lyf sem innihalda acetaminophen ef þú þarft að takast á við flensu, hausverk eða aðra verki.

Þess má geta að bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitið hefur mælt með því að Vicodin og Percocet verði bönnuð í ljósi þess að þau koma mjög oft við sögu í þeim dánartilfellum sem varða acetaminophen og lifrarbilun.

(The Wall Street Journal, 14. júlí 2009)

Exit mobile version