Heilaköngullinn framleiðir hormónið melatónín. Hér á landi er melatónín skilgreint sem lyf. Ekki í Bandaríkjunum. Töluvert er því um að íslendingar reyni að flytja það inn frá netverslunum í Bandaríkjunum og í sama mæli færist í vöxt að Tollurinn stöðvi innflutning á lyfinu.
Melatónín er náttúrulegt hormón sem oftast er notað til að bæta svefn. Það hefur svæfandi áhrif og eykur syfju. Helsta notagildi þess er að koma reglu á svefn, laga flugþreytu, takast á við svefntruflun vegna vaktavinnu og blindir hafa fengið því ávísað til að koma reglu á nætursvefn. Er þá fátt eitt talið af meintum verkunum þessa lyfs.
Sumir nota melatónín vegna Alzheimer eða við minnisleysi. Listinn yfir meint notagildi melatóníns er langur. Meint notagildi spannar allt frá meðhöndlun við aukaverkunum vegna krabbameinslyfja til notagildis sem sólarvörn sé það borið á húð.
Samkvæmt rannsóknum á músum er hugsanlegt að melatónín gagnist í baráttunni við aukakílóin vegna áhrifa þess á bakteríur í þörmum. Kínverskir vísindamenn settu mýs á fituríkt mataræði sem breytti magaflórunni og fitaði þær. Þegar músunum var gefið melatónín breyttist þarmaflóran, mýsnar léttust og fitusöfnun minnkaði.
Aðrar rannsóknir hafa bent til að melatónín dragi úr bólgum og komi eðlilegu jafnvægi á adipókín boðefnin. Adipókín boðefni eru mikilvæg boðefni fyrir fituefnaskipti. Óeðlileg þarmaflóra tengist offitu, slöku ónæmiskerfi, andfýlu, tannholdssjúkdómum, hjarta- og kransæðasjúkdómum, krabbameini, bakverkjum, ofnæmi og einhverfu.
Ef mark er takandi á meintri virkni melatóníns kann engan að undra að Tollurinn muni hafa mikið að gera næstu misserin við að þefa uppi melatónínsendingar frá landi frelsisins.
(Journal of Pineal Research, vefútgáfa 15. febrúar 2017; webmd.com:Melatonin)