Site icon Fitness.is

Harður slagur í uppsiglingu fyrir norðan

Íslandsmótið í fitness 18-19 apríl Þessa dagana eru keppendur í óða önn að undirbúa sig fyrir Íslandsmótið í fitness sem haldið verður dagana 18.- 19. apríl í Íþróttahöllinni á Akureyri. Keppnin sem er löngu orðinn árviss viðburður er hátindur keppnisársins hjá fitnesskeppendum, enda stefna flestir sterkustu keppendur landsins á að taka þátt. Báðir Íslandsmeistararnir, þau Anna Margrét Ólafsdóttir og Sigurbjörn Guðmundsson stefna á að taka þátt í mótinu, en þau koma örugglega til með að standa í eldlínunni og fá harða keppni. Sif Garðarsdóttir, sem tók sér frí frá keppni vegna barneigna er aftur farin að setja stefnuna á Íslandsmótið og væri til alls vís. Einnig herma óstaðfestar fregnir að Guðrún Gísladóttir hafi sýnt því mikinn áhuga að blanda sér í slaginn aftur, en hún hefur einnig verið fjarri keppni vegna barneigna. Það er greinilega mjög frjósamt að keppa í fitness. Kristján Samúelsson hefur einnig sett stefnuna á að keppa á Íslandsmótinu og æfir af kappi þessa dagana. Kristján fékk þriggja mánaða keppnisbann eins og frægt er orðið eftir síðasta Íslandsmót eftir að efedrín greindist í lyfjaprófi. Fyrir það er einungis þriggja mánaða keppnisbann, en það kostaði hann hinsvegar Íslandsmeistaratitilinn og hann ku ætla að gera sitt besta til að endurheimta hann með réttu á Íslandsmótinu. Keppt í nýjum flokkiKeppt verður í svokölluðum BodyFitness kvennaflokki á næsta Íslandsmóti sem er  frábrugðinn hefðbundna flokknum að því leiti að keppendur fara ekki í danslotu, heldur koma fram á sundbolum og bikini. Keppt var í þessum flokki í fyrsta skipti á Bikarmeistaramótinu á síðasta ári og í kjölfar þess virðist vera mikill áhugi meðal kvenna að taka þátt, enda hefur danslotan verið mörgum keppendum þyrnir í augum. Sterkari á eftirSíðasta Íslandsmót varð nokkuð áfall fyrir fitnessíþróttina hvað það varðar að þrír keppendur féllu á lyfjaprófi eftir keppnina með tilheyrandi umfjöllun fjölmiðla, en eftir á að hyggja stendur íþróttin sterkari eftir. Vangaveltur hafa verið uppi um það hvort lyfjaeftirlitið komi til með að valda minni þátttöku á næsta Íslandsmóti, en ekki er annað að sjá en að allir helstu keppendur landsins séu að stefna á að taka þátt. Það bar minna á því í fjölmiðlum að lyfjapróf hafi verið framkvæmd síðastliðin fjögur ár en auðvitað var ekki fjallað um það fyrr en einhver féll. Pantið með fyrirvaraÞeir sem hyggjast bregða sér norður um Páskana til þess að fara á skíði og fylgjast með íslandsmótinu, ættu að panta gistingu með góðum fyrirvara. Sífellt fleiri fara norður um Páskana og því oft erfitt um vik að verða sér úti um gistingu á síðustu stundu.

Exit mobile version