Í dag er stór dagur í sögu líkamsræktar á Íslandi. Fimm íslendingar unnu til verðlauna á Arnold Sports Festival mótinu sem haldið var um helgina í Bandaríkjunum. Dagbjört Guðbrandsdóttir sigraði í sínum flokki í módelfitness og Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir hafnaði í öðru sæti í sama flokki en þær kepptu í F-flokki. Magnea Gunnarsdóttir hafnaði í þriðja sæti í E-flokki, Margrét Edda Gnarr í fjórða sæti í D-flokki og Kristrún Sveinbjörnsdóttir í fimmta sæti í E-flokki.
Þær Erna Guðrún Björnsdóttir, Alexandra Sif Nikulásdóttir, Sigríður Ómarsdóttir og Margrét Hulda Karlsdóttir komust í tíu manna úrslit og kepptu í dag en komust ekki í fimm manna úrslit. Í heildina kepptu 16 íslendingar á mótinu og þar af komust níu í tíu manna úrslit. Fram til þessa hefur þótt afrek að komast yfir höfuð í tíu eða fimmtán manna úrslit á sambærilegum stórmótum. Alls kepptu á fjórða hundrað keppendur í hinum ýmsu fitnessflokkum og þetta mót er því eitt hið stærsta sinnar tegundar. Þessi árangur íslensku keppendana ætti að halda þeim ofarlega í skýjunum næstu daga og vikur þar sem þetta er tímælalaust sögulegur árangur og til marks um nýja útrás íslenskra íþrótta- og afreksmanna.