Site icon Fitness.is

Gras veldur heilaskaða

Graskerar þurfa ekki að hafa áhyggjur þó sagt sé að gras valdi heilaskaða. Hér erum við að tala um kannabisefni eða hass. Látið er að því liggja í fjölda kvikmynda og jafnvel heimildamynda að kannabis sé algerlega skaðlaust. Það er ekki þannig.

Reykingar á kannabisefnum stuðla að hjartasjúkdómum, lungnakrabbameini og þær geta valdið heilaskaða. Breskir vísindamenn hafa sýnt fram á að reglulegir kannabisneytendur séu í aukinni hættu gagnvart geðrofi (geðklofa) og alvarlegu þunglyndi.

Rannsóknir í Svíþjóð og á Nýja Sjálandi hafa einnig sýnt fram á tengsl kannabisneyslu og andlegra veikinda.
Kannabis er mun sterkara í dag en það var á tímum hippana á sjötta og sjöunda áratugnum. Það sakleysi sem reynt er að mála þetta umdeilda efni er mjög varhugavert. Eins og með alla hluti geta jafnvel hættuleg efni eða lyf gagnast þeim sem sérstaklega þurfa á þeim að halda.

Nánast öll lyf sem framleidd eru í dag fela í sér alvarlegar aukaverkanir ef þau eru ekki notuð í réttu magni og réttum tilgangi. Í því sambandi er vert að minnast þess að mun fleiri deyja vegna lyfjaneyslu en vegna slysa. Fyrst og fremst vegna verkjalyfja. Kannabisefni eru ekki hættulaus þó að sumum sé ráðlagt að nota þau í læknisfræðilegum tilgangi.

(BBC News, vefútgáfa)

Exit mobile version