Site icon Fitness.is

Grand Prix mót um helgina í Noregi

Þrír íslenskir keppendur halda til Oslo um helgina til þess að taka þátt í keppni sem nefnist Body Oslo Grand Prix. Keppt er bæði í vaxtarrækt og fitness á mótinu. Í vaxtarrækt keppa þeir Magnús Bess Júlíusson og Sigurður Gestsson, en í fitness keppir Heiðrún Sigurðardóttir.Búist er við hátt í 70 keppendum í bæði vaxtarrækt og fitness frá Norðurlöndunum og er því búist við sterkri keppni. Þetta er þriðja mótið sem íslenskir keppendur keppa á á erlendri grundu á þessu ári. Hjá IFBB er reyndar að aukast verulega framboð á ýmsum erlendum keppnum sem íslenskir keppendur eiga möguleika á að komast á. Verið er að ýta af stað nýrri mótaröð sem ber yfirskriftina African-European Championships, haldið verður Miðjarðarhafsmót í Október nálægt Sikiley, heimsmeistaramótið verður haldið í september á Spáni og búast má við að hin ýmsu lönd komi til með að halda opin mót sem hægt er að senda keppendur á. Ísland hefur ennfremur fengið leyfi til þess að halda eitt alþjóðlegt opið IFBB mót á hverju ári. Hvort farið verður út í slíkt liggur ekki fyrir á þessari stundu en vissulega þykir forsvarsmönnum IFBB það áhugaverður kostur. Framkvæmd slíkra móta er þó nokkuð umsvifamikil þar sem algengt er að 30 – 40 þjóðir sæki slík mót með fjölda keppenda. Fyrir liggur að Norðurlandamót verður haldið hérlendis árið 2008, en það er eina alþjóðlega fitness- og vaxtarræktarmótið se tekin hefur verið ákvörðun um að halda.

Exit mobile version